Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair segir að fyrirsjáanlegt sé að meira verði umleikis á vegum félagsins á komandi mánuðum varðandi verkefni á Grænlandi. Því hafi verið ákveðið að kaupa Twin Otterinn og verður hann staðsettur á vesturströnd Grænlands í sumar. Flugmenn frá félaginu verða ferjaðir þangað frá Akureyri til að sinna verkefnum þar. „Við sjáum fram á að það verði meira um að vera á Grænlandi á næstu mánuðum og það er mjög ánægjulegt fyrir okkur," segir hann.
Um næstu mánaðamót tekur Norlandair á leigu flugvél af gerðinni Beech 200 og mun hún verða notuð til að sinna innanlandsflugi, leiguflugi og verkefnum á Grænlandi. Nú eru sjö sæti í vélinni en til stendur að gera breytingar á innréttingum og fjölga um tvö sæti, þannig að þau verði alls níu.
Um þessar mundir er verið að ráða nýja starfsmenn til Norlandair, 5-6 manns að sögn Friðriks, bæði flugmenn sem og annað starfsfólk. Vegna aukinna umsvifa og stækkandi flugflota þarf félagið á stærra flugskýi að halda og segir hann að forsvarsmenn félagsins skoði hvernig best verði leyst úr þeim málum. Ýmislegt komi til greina, m.a. að stækka það flugskýli sem fyrir er með viðbyggingu eða kaupa annað skýli. „Við þurfum að finna góða og hagkvæma lausn sem fyrst, en enn sem komið er liggja ákvarðanir ekki fyrir," segir Friðrik.