Lið Norðurþings er sigurvegari í Útsvari, spurningarkeppni Sjónvarpsins, árið 2011 eftir sigur á grönnum sínum frá Akureyri,
75:73, í úrslitaþættinum sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í kvöld. Lið Akureyrar hafði forystu lengst
framan af í keppninni og lengi leit út fyrir sigur Akureyringa. Norðurþing saxaði hins vegar á forskotið í seinni hluta
keppninnar og spennan var mikil í lokin þar sem úrslitin réðust á lokaspurningunni.
Staðan var þá 75:73 fyrir Norðurþing. Akureyri átti síðustu spurninguna og valdi fimm stiga spurningu og hefði getað tryggt sér
sigurinn með réttu svari. Svar þeirra reyndist hins vegar ekki rétt og því fögnuðu liðsmenn Norðurþings í lokin.
Í liði Norðurþings voru þau Kristveig Sigurðardóttir, Stefán Þórsson og Þorgeir Tryggvason en lið Akureyrar var skipað
þeim Hildi Jönu Gísladóttir, Birgi Guðmundssyni og Hjálmari Brynjólfssyni.