Norðlenska hættir slátrun á Höfn

Sláturhús Norðlenska á Húsavík.
Mynd. JS
Sláturhús Norðlenska á Húsavík. Mynd. JS

Norðlenska ehf. hefur starfrækt starfsdeild með sauðaslátrun  á Höfn í Hornafirði í 13 ár. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að hætta slátrun þar og flytja til Húsavíkur en þar er fyrir fullkomið sláturhús og vinnslustöð.

„Að óbreyttu er ekki gert ráð fyrir að slátra sauðfé á vegum Norðlenska á Höfn haustið 2016.  Slátrun á Höfn hefur verið um 50% dýrari en slátrun í sláturhúsi félagsins á Húsavík.  Miðað við núverandi stöðu á kjötmarkaði eru stjórnendur og stjórn Norðlenska nauðbeygð til að leita allra leiða til að draga úr kostnaði til að standa vörð um eign hluthafa, sem erum yfir 500 bændur, í félaginu,“ sagði Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska um málið. Hann segir jafnframt að einn starfsmaður muni missa vinnuna á Höfn vegna þessa, „en ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna á Húsavík utan sláturtíðar en gert er ráð fyrir að sláturdögum í sauðfjársláturtíð fjölgi,“ segir hann.

Magnhildur Pétursdóttir sláturhússtjóri á Höfn sagði í samtali við dagskrain.is að búið væri að tilkynna að það verði ekki slátrað á Höfn í haust.

Ósáttir bændur

Ekki eru allir bændur sáttir við að geta ekki slátrað á Höfn, „Bændur eru náttúrlega mjög ósáttir, það versta er að ekki er búið að tilkynna þetta öllum bændum. Það er komið svolítið aftan að þeim. Ákvörðun var í rauninni tekin áður en búið var að funda með bændum. Ég veit um bændur sem eru mjög reiðir,“ sagði Magnhildur.

„Þetta er náttúrlega hörmulegt,“ sagði Stefán Helgason sauðfjárbóndi á bænum Setbergi á Höfn í Hornafirði í samtali við dagskrain.is, en hann hafði heyrt óstaðfestar fréttir um að hætta ætti slátrun á Höfn.  „Það er þessi eilífa hagræðingarkrafa og þetta kjaftæði um hagkvæmni stærðarinnar, en það er allt annað látið lönd og leið. Svo er þetta bara orðið eins og hjá trygginga- og olíufélögunum, bara hrein og klár fákeppni. Það er bara mjög vont fyrir íslenskt samfélag í heild að þetta skuli vera að fara svona. Bændur mega ekki við þessu,“ sagði Stefán.

Magnhildur sláturhússtjóri á Höfn segir bændur ekki hafa í mörg hús að venda, „næsta sláturhús er SS á Selfossi, og svo á Vopnafirði reyndar,“ segir hún. „Norðlenska gerir náttúrulega ráð fyrir því, [að allt fé verði keyrt til Húsavíkur til slátrunar] eða vonar það. Stysta akstursleið á milli Húsavíkur og Hafnar er um Kísilveg, Möðrudalsöræfi og Öxi eða 404 km. Á milli Selfoss og hafnar eru 401 km. Um Skeiðarársand, en til Vopnafjarðar frá Höfn er stysta leið 278 km. samkvæmt vef vegagerðarinnar.

„Ég er ekkert farin að sjá fyrir mér að bændur vilji láta koma svona fram við sig, þannig að ég geri ráð fyrir því að þeir leiti annara leiða, en að keyra fé sitt til Húsavíkur,“ sagði Magnhildur.

Ágúst Torfi segir að vissulega sé skiptar skoðanir um þessar breytingar sem aðrar, „En við teljum að þessar breytingar séu óumflýgjanlegar og staðan á kjötmarkaði þvingi fram hagræðinu í greininni.“

Starfsfólk á Akureyri uggandi

Þessar breytingar voru ræddar á fundi með starfsfólki Norðlenska á Akureyri í síðustu viku, en samkvæmt heimildum vefmiðilsins daskrain.is hefur lengi verið uggur í starfsfólki á Akureyri um að starfsemin verið flutt alfarið til Húsavíkur. Þessar breytingar á Höfn hafa hleypt nýju lífi í slíkar áhyggjur.

Ágúst Torfi Hauksson segir þessar áhyggjur vera óþarfar; „Þetta sem þú ert að tala um á Höfn er algjörlega óháð öllum öðrum pælingum, það eru búnar að vera umræður um það lengi [þ.e] um staðsetningu ýmissa þátta innan fyrirtækisins, annars vegar á Akureyri og hinsvegar á Húsavík. Við erum með leigusamning hér á Akureyri nokkur ár fram í tímann. Hvað sem gerist þá er það ekki að fara gerast á næstunni,“ sagði hann og vísar þarna til leigusamnings á húsnæði starfsstöðvarinnar á Akureyri við samkeppnisfyrirtækið Kjarnafæði. Sá samningur rennur út eftir 3 ár. EPE

Nýjast