Niðurstöður aðalfundar Kaldbaks ehf

Aðalfundur Kaldbaks ehf. fór fram fimmtudaginn 21. ágúst. Þar var ársreikningur félagsins fyrir árið…
Aðalfundur Kaldbaks ehf. fór fram fimmtudaginn 21. ágúst. Þar var ársreikningur félagsins fyrir árið 2024 samþykktur. Í tölunum má sjá að rekstur félagsins gekk vel á árinu og afkomu- sem og eignaþróun endurspeglar sterka fjárhagsstöðu Kaldbaks.

Aðalfundur Kaldbaks ehf. fór fram fimmtudaginn 21. ágúst. Þar var ársreikningur félagsins fyrir árið 2024 samþykktur. Í tölunum má sjá að rekstur félagsins gekk vel á árinu og afkomu- sem og eignaþróun endurspeglar sterka fjárhagsstöðu Kaldbaks. Hagnaður samstæðu Kaldbaks nam rúmum 2,3 milljörðum króna og eigið fé stóð í 36 milljörðum við árslok. Árið áður nam hagnaður samstæðunnar um 9,5 milljarði en á því ári innleysti félagið um 7 milljarða söluhagnað af eignum sínum.

 

Á liðnu ári jukust skráðar eignir félagsins um tæpa 3 milljarða króna á árinu, en þar sem reikningsskil félagsins byggja á hlutdeildaraðferð, er þessi óinnleysti hagnaður ekki færður til tekna í rekstri liðins árs. Hluthafar samþykktu arðgreiðslu til hluthafa að fjárhæð 276 milljónir króna.

Stjórn félagsins var endurkjörin og sitja áfram Steingrímur H. Pétursson (formaður), Dagný Linda Kristjánsdóttir (varaformaður), Katla Þorsteinsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Björk Þórarinsdóttir.

Kaldbakur ehf. er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á langtímaverðmætasköpun í gegnum virkt eignarhald. Félagið á eignarhluti í fjölbreyttum fyrirtækjum sem starfa á sviði dagvöru, eldsneytis, fjármála og trygginga, auk matvæla-, sjávarútvegs- og vindorkugeirans.

 

Helstu eignir Kaldbaks eru meðal annars:

· REM Offshore Holding A.S. og Optimar A.S. í Noregi

· Bergfrost p/f í Færeyjum

· Hagar hf., Hrólfssker ehf. (Sjóvá) , Jarðboranir hf. og Slippurinn Akureyri ehf. á Íslandi

Eignasafn Kaldbaks samanstendur af skráðum og óskráðum fjárfestingum, og eru um 40% þess erlendar eignir. Handbært fé móðurfélagsins við síðustu áramót nam 6,7 milljörðum króna, sem jafngildir nær 20% af heildareignum. Fjárhagsstaða félagsins er því afar sterk.

 

Frá forstjóra

Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Kaldbaks ehf.:

„Við höfum átt gott ár þar sem samstarf við félögin í eignasafninu hefur skilað góðum árangri. Okkar meginmarkmið er að vera traustur og virkur hluthafi sem styður við rekstur og vöxt fyrirtækja í eignasafninu.

Fram undan eru krefjandi aðstæður, sérstaklega í þeim geirum sem tengjast þjónustu við sjávarútveginn. Við sjáum talsvert fall í pöntunum sem nú þegar er farið að hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja. Nauðsynlegt verður að efla samvinnu milli viðkomandi fyrirtækja til að mæta þeim áskorunum. Samhliða þessu munum við sem fyrr vinna áfram með eignasafn okkar – bæði með nýjum fjárfestingum sem og sölu eigna þegar það á við.“

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins

 

Nýjast