Líkan af síðutogaranum Harðbak EA 3 verður afhjúpað við hátíðlega athöfn nyrst á Torfunefsbryggju á laugardag, 30. ágúst kl. 14. Fyrrum sjómenn á ÚA togurum stóðu fyrir gerð þess, en það smíðaði Elvar Þór Antonsson líkt og fimm önnur líkön sem fyrrverandi togararajaxlar hafa látið smíða af skipum sem gerð voru út af Útgerðarfélagi Akureyringar í áranna rás.
Fyrir eru líkön af Skuttogurunum Svalbak EA 302, Sléttbak EA 304, Kaldbakur EA 301, Harðbak EA 303, Sólbak EA 5. Þau verða öll til sýnis við athöfnina. Sigfús segir að hér verði látið staðar numið, „í bili að minnsta kosti.“
Hann bætir við að skipslíkönin sem nú eru 6 talsins séu heimilislaus, „og það er að okkar mati brýnt að finna þeim góðan og varanlegan stað þar sem fólk getur komið og litið þau augum. Þau eru núna bara geymd í bílskúrum úti í bæ, engum til ánægju. Það er ófært,“ segir hann.
Sigfús Ólafur Helgason
Draumur um sjóminjasafn
Skipslíkönin hafa verið sýnd tímabundið á dvalarheimilum bæjarins og einnig á Glerártorgi en alltaf skamma stund á hverjum stað. „Draumurinn er auðvitað á það rísi sjóminjasafn sem varðveiti sjávarútvegssögu Eyjafjarðar, en það er enn bara draumur og enginn veit hvort hann verði að veruleika. Mér finnst áhugi bæjarfulltrúa á Akureyri í það minnsta ekki ýkja mikill að varðveita þessa merku sögu og sýna sjómönnum fyrr og nú sóma og heiður. Við getum ekki horft fram hjá því að í þessum hópi voru hátekjumenn sem sköpuðu umtalsverðar tekjur með sínu útvari til bæjarsjóðs. Sem og allir þeir sem störfuðu fiskiðnaði.“