Nokkur fjölgun var hins vegar á háskólastigi eða um 4,3%. Fækkun nemenda skýrist fyrst og fremst af samdrætti í fjarnámi og
öldungadeildum á framhaldsskólastigi. Þá fækkaði nemendum grunnskóla sem sóttu nám í framhaldsskólum umtalsvert og voru um
fjórðungur fjölda grunnskólanemenda í framhaldsskólum haustið 2008. Konur voru umtalsvert fleiri en karlar meðal skráðra nemenda eða 5.396
fleiri. Alls stunduðu 26.318 konur nám í framhaldsskólum og háskólum á móti 20.922 körlum. Konur voru 55,7% nemenda á öllum
skólastigum ofan grunnskóla. Hlutur karla var 44,3% en karlar voru 43,5% nemenda haustið 2009. Körlum fjölgaði hlutfallslega í nemendahópnum þar
sem konum fækkaði meira en körlum á milli ára. Þegar skipting kynja er skoðuð eftir skólastigum samkvæmt íslensku menntunarflokkuninni
ÍSNÁM2008 voru konur 51,9% nemenda á framhaldsskólastigi, 34,6% nemenda á viðbótarstigi, 62,3% nemenda á háskólastigi og 58,3%
nemenda á doktorsstigi. Í bóklegt nám á framhaldsskólastigi voru skráðir 17.938 nemendur en í starfsnám voru skráðir
9.044 nemendur. Því voru 66,5% nemenda á framhaldsskólastigi skráðir í einhvers konar bóknám en 33,5% nemenda skráðir í
einhvers konar starfsnám.
Á háskólastigi voru 97,9% nemenda skráðir í fræðilegt háskólanám en 2,1% í starfsmiðað
háskólanám. Doktorsnemum fjölgaði um 168 frá fyrra ári og eru nú 482 í námi á 47 fræðasviðum. Ef einstakar
námsbrautir á háskólastigi eru skoðaðar eru flestir nemendur skráðir á svið viðskiptafræða. Þar voru skráðir
2.452, þar af 54,4% konur. Næst fjölmennasta námssviðið á háskólastigi er lögfræði en þar voru skráðir til
náms 1.387, þar af 53,2% konur. Fjöldi nemenda í viðskipta- og lögfræði er svipaður og fyrir ári síðan. Viðskiptagreinar og
lögfræði eru einu námsbrautirnar á háskólastigi þar sem fjöldi nemenda náði einu þúsundi, segir m.a. í
frétt frá Hagstofunni.