Hann segir að þó nokkru færri hafi verið í Hlíðarfjalli um nýliðna páska en t.d. var í fyrra og árið þar á undan. „Veðurspáin fyrir páskahelgina fyrir norðan var ekki góð og hefur eflaust eitthvað dregið úr ferðagleðinni og þá voru páskarnir heldur seint miðað við tvö síðustu ár," segir Guðmundur Karl. „Miðað við allt erum við bara nokkuð sátt, það rættist úr þessu og þegar upp verður staðið er þetta þriðja besta ár frá upphafi hér í Hlíðarfjalli, þannig að það er alls ekki hægt að kvarta," segir Guðmundur Karl. Andrésar Amdarleikarnir standa nú yfir í Hlíðarfjalli og lýkur á morgun, föstudag, en fjallið verður opið fram á sunnudag, 1. maí. „Við lokum eftir helgi og horfum bara jákvæð fram til næsta veturs," segir Guðmundur Karl.
Arinbjörn Þórarinsson framkvæmdastjóri Greifans segir að páskarnir hafi verið í rólegri kantinum miðað við undanfarin ár. „Það var minna um ferðamenn, en nokkuð mikið um „brottflutta" Akureyringa. Klárlega var færra fólk í bænum en oft áður um páska," segir hann og nefnir að skýring geti verið sú að þeir voru seint á ferðinni á þessu ári. „Sumarfrí eru handan við hornið, leiðinleg veðurspá og svo himinhátt eldsneytisverð held ég að séu samverkandi þættir sem gerðu það að verkum að páskarnir í ár eru minni en undanfarin ár," segir Arinbjörn.