Mjólkurbílstjóri slapp með skrekkinn úr snjóflóði

Sigurður Sveinn Ingólfsson mjólkurbílstjóri hjá MS-Akureyri komst í hann krappann síðdegis á mánudag þegar hann lenti inn í snjóflóði í námunda við bæinn Veisusel í Fnjóskadal.  Hann var að sækja mjólk í Böðvarsnes og var á bakaleið þegar flóðið féll. Sigurður segir að aðstæður hafi verið slæmar, mjög blint og renningur yfir veginn þannig að skyggni var ekki gott.  

„Ég fann að eitthvað skall á hliðina á bílnum og áttaði mig strax á því að um væri að ræða snjóflóð," segir Sigurður en hann gat stöðvað tankbílinn og bakkað út úr flóðinu.  Það var um 200 metra breitt og tveggja til þriggja metra hátt.  Hann segir að litlu hafi mátt muna að verr færi, því hefði hann verið örlítið fyrr á ferðinni, um hálfri mínútu, hefði bíllinn lent inn í flóðinu.  Þá er ekki víst að hann og mjólkurbílinn hefðu sloppið svo vel sem raun ber vitni, en engar skemmdir urðu á bílnum og Sigurð sakaði ekki. 

Leitaði hann eftir aðstoð við að komast áfram leiðarinnar og beið í um þrjá klukkutíma eftir að snjóruðningstæki höfðu hreinsað snjó af veginum.  Sigurður segir að tíð hafi verið með versta móti síðustu daga og erfiðleikar í mjólkurflutningum vegna ótíðar, en allt hafi sloppið til og þeir einungis fallið niður í einn dag, sl. föstudag.

Nýjast