Minningarsigling verður um horfna og látna sjómenn í tengslum við hátíðarhöld á sjómannadaginn, en siglt verður með Húna II EA 740 næsta laugardag, 31. maí kl. 17.
Siglt verður út á Eyjafjörð. Séra Magnús Gunnarsson fer með bæn og þá fá aðstandendum færi á að leggja rós í hafið í minningu látinna sjómanna og sérstaklega þeirra sem hvíla í votri gröf.
Sigfús Ólafur Helgason einn skipuleggjenda segir að bryddað hafi verið upp á þessari fallegu nýjung á sjómannadaginn í fyrra og var mjög góður rómur gerður að. „Ég vona að þetta verði héðan í frá órjúfanlegur hluti hátíðahalda sjómannadagsins á Akureyri,“ segir hann. Rými er fyrir 70 farþega um borð í Húna og eru allir velkomnir á meðan pláss er.
Lagt verður upp frá Fiskihöfninni norðan við ÚA og er áætlað að siglingin taki um klukkustund.