Sigurbjörn Sveinsson hótelstjóri segir að með þessum breytingum sé verið að gera Hótel Hörpu að fjögurra stjörnu hóteli, líkt og Hótel Kea er, sameina það Hótel Kea og í kjölfarið verður vörumerkið Hótel Harpa lagt niður. Með því verða herbergin á Hótel Kea orðin 99 talsins, að sögn Sigurbjörns.
Framkvæmdir við þessar breytingar hófust um miðjan desember og ráðgert er að þeim ljúki um miðjan næsta mánuð. Sigurbjörn gerir ráð fyrir því að í framhaldinu fari heldur að lifna yfir hlutunum. Hann nefnir í því sambandi, árshátíðarferðir, leikhúsferðir og skíðaferðir. "Það er alla vega viðbúið að helgarnar geti orðið þokkalegar."
Sigurbjörn segir að desember sl. hafi verið alveg ágætur miðað við sama mánuð árið áður. Hins vegar sé mjög rólegt nú í janúar, febrúar líti aðeins þokkalega út en að það líti vel út með bókanir í mars. "Það má segja að heilt yfir sé þetta í meðallagi. Síðustu tveir vetur voru góðir, sérstaklega 2010 en í framhaldi af hruninu var rólegt framan af 2009 en svo fór að lifna yfir hlutunum þegar á árið leið," sagði Sigurbjörn.