Mikilvægt að koma lambám í skjól vegna veðurútlits

Fyrir lambær er mikil bleyta og stinngingsgola afskaplega slæm, eitt það alversta veður sem þær geta lent í," segir Ólafur G. Vagnsson ráðunautur hjá Búgarði, en bændur hafa verið hvattir til að huga að öllu búfé, ekki síst lambfé og koma því í skjól.  Veðurútlit næstu daga er slæmt, spá er norðan og norðaustan strekkingi með úrkomu og kulda. Allt bendir til þess að þetta kuldakast standi fram í næstu viku.  

Ólafur segir sauðburð vel á veg kominn og margir bændur hafi sett ær með lömb út.  Hann bendir á að ær sem hafi mjólkað í um það bil tvær vikur líkt og algengt er nú á þessum tíma séu sérlega viðkvæmar fyrir vorhretinu, lömbin séu aftur á móti orðin stálpuð, þau séu pattaraleg og þoli leiðindaveður. „Mæðurnar eru hins vegar mjög viðkvæmar á þessum tíma og séu þær úti í mikilli bleytu og hvassviðri eru líkur á að þær geti orðið geldar og mjólki lítið sem ekkert það sem eftir er af er sumri.  Við hvetjum því bændur til að koma fé sínu í skjól áður en hretið skellur yfir af fullum þunga," segir Ólafur.

Nýjast