Megi Barnabókasetrið eflast og dafna til gæfu og gagns fyrir börn þessa lands

Gestum Amtsbókasafnsins var boðið upp á graut og slátur, sem er matur sem margar fjölskyldur borða s…
Gestum Amtsbókasafnsins var boðið upp á graut og slátur, sem er matur sem margar fjölskyldur borða saman í háeginu á laugardögum

Barnabókasetur – rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna við Háskólann á Akureyri, var formlega stofnað í dag, við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu, að viðstöddu fjölmenni.  Á meðal gesta var Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Að setrinu standa auk háskólans, Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri. Þá eiga  Rithöfundasamband Íslands, Samtök barna- og unglingabókahöfunda, IBBY, Félag fagfólks á skólasöfnum og fleiri aðild að setrinu. Stofnunin fór fram með formlegum hætti, þar sem Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins, rithöfundarnir Þorgrímur Þráinsson og Kristín Helga Gunnarsdóttir, Stefán B. Sigurðsson rektor HA, Björg Sigurðardóttir frá Félagi fagfólks á skólastöfnum og Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður, tóku höndum saman, eins og sést á myndinni. Jafnframt var opnuð á Amtsbókaasafninu sýningin „Yndislestur æsku minnar“ – fyrsta verkefni setursins. Þar sýnir þekkt fólk eftirlætisbarnabókina sína og lýsir því hvers vegna hún er minnisstæð.

Sigrún Klara Hannesdóttir prófessor og fyrrverandi Landsbókavörður flutti ávarp við stofnun Barnabókasetursins og hún sagðist hafa reynt að koma þessu óskabarni sínu á laggarnir í 39 ár, Þessi draumur hennar varð til þegar hún fór til Svíþjóðar árið 1973, til að kynna sér sænskar barnabækur og skólasöfn,  Sigrún Klara sagðist hafa reynt allt mögulegt þessi 39 ár til að koma þessu óskabarni sínu á laggarnir. “Ég verð að viðurkenna hér og nú að ég er svolítið feimin að viðurkenna hversu langan tíma það hefur tekið að finna aðila sem hefur verið tilbúinn að stíga þetta skref. Það kannski sýnir hversu lítill þrýstihópur áhugafólks um barnabækur og lestur þeirra er í samfélaginu. “En í dag er gleðidagur, stofnunin er að fæðast og ég er stollt yfir því að geta talist guðmóðir barnsins.” Af þessu tilefni ánafnaði Sigrún Klara Barnabókasetrinu barnabókasafni sínu, sem telur um 1.000 bækur.  Hún sagði að með stofnun setursins hefði verið  stigið merkilegra skref en menn gerðu sér grein fyrir. Hún sagðist jafnframt vonast til að setrið megi eflast og dafna til gæfu og gagns fyrir börn þessa lands og aðra áhugasama um lestur barna. Sigrún Klara las svo kafla úr uppáhaldsbarnabók sinni en fyrir valinu varð bókin um Heiðu.

Katrín mennta- og menningarmálaráðherra sagði í sínu ávarpi að stofnun Barnabókasetursins væri mikið fagnaðarefni. “Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur öll sem erum áhugafólk um bókmenntir en ekki síður fyrir okkur öll sem erum áhugafólk um lestur og læsi barna.” Sjálf les Katrín á hverjum degi og hún las kafla úr sinni uppáhaldsbarnabók á Amtsbókasafninu. Áður rifjaði hún það upp að hún hefði talað svo mikið sem barn að móðir hennar hefði beðið bræður sína að kenna sér að lesa, svo hún hætti að tala. “Þeir gerðu það og það færðist unaðsleg þögn yfir heimilið og allir voru glaðir. Ég tapaði mér alveg og las allt sem í boði var.” Katrín las kafla úr bókinni um Jón Odd og Jón Bjarna enda stæðu fáar bækur henni nær. “Þegar ég las þessa bók fannst mér ég vera að lesa um mína eigin fjölskyldu.” Þá tilkynnti ráðherra að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði samþykkt að veita einni og hálfri milljón króna til þess að hjálpa til við að koma þessu mikilvæga verkefni af stað. Hún sagði að þessi stofnun ætti eftir að gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í framtíðinni.

Viljayfirlýsing um stofnun Barnabókasetursins var undirrituð í HA á degi íslenskrar tungu sl. Þörfin fyrir setur sem einblínir á bóklestur og lestrarmenningu barna hefur þó lengi verið ljós. Ótal rannsóknir hafa sýnt minnkandi áhuga íslenskra barna og unglinga á bóklestri undanfarin ár og áratugi. Áhugi barna á lestri hefur víðar dregist saman en hérlendis en íslensk börn eru hins vegar undir meðaltali og standa sig í kjölfarið verr í lesskilningi en börn í þeim löndum sem við oftast berum okkur saman við. Stofnendur setursins telja mikilvægt að stunda rannsóknir á þessu sviði. Þeir telja líka tímabært að nýta þær rannsóknir sem gerðar hafa verið til að fræða fólk og snúa vörn í sókn.

Markmið Barnabóksetursins eru eftirfarandi:

a) Að stunda rannsóknir og fræðslu um barnabókmenntir og lestur á Íslandi.
b) Að hvetja til og skapa aðstöðu til rannsókna á barnabókmenntum.
c) Að miðla þekkingu og upplýsingum um barnabókmenntir á Íslandi og stuðla að sýnileika þeirra í samfélaginu.
d) Að vinna að framgangi lestrarmenningar meðal barna og ungmenna á Íslandi.
e) Að efla og treysta innlend og erlend tengsl og taka þátt í alþjóðlegri þekkingarsköpun á fræðasviðinu.
f) Að standa fyrir málþingum og stuðla að útgáfu fræðilegs efnis á sviðinu.

 

Nýjast