Matsönn ætluð nýnemum úr grunnskólum í VMA í vor

Matsönn er ætluð þeim nýnemum úr grunnskólum sem sótt hafa um skólavist í VMA á komandi haustönn í gegnum forinnritun og uppfylla ákveðin skilyrði um námsárangur í 9. og 10. bekk. Ákvörðun um þessi mörk verður tekin í samráði við grunnskólana; hverjum treysta þeir í próf af þessu tagi? Tækifæri til krefjandi viðfangsefna í maímánuði fyrir viðkomandi nemendur í samvinnu við faggreinakennara.  

Umsækjendum verður gefinn kostur á að koma á tvær kynningar í apríl- og maílok og síðan að þreyta próf í byrjunaráföngum í fimm námsgreinum í byrjun júnímánaðar.  (Dagsetningar ákveðnar í samráði við grunnskólana). Um er að ræða ensku, íslensku, náttúrufræði, stærðfræði og upplýsingatækni. Eru áfangarnir metnir til allt að 14 námseininga. Nemendur geta valið um hvað þeir þreyta próf úr mörgum.

Matsönn VMA er hugsuð fyrir duglega nemendur í bóknámi sem vilja nýta sér sveigjanleika áfangakerfisins og flýta námi sínu til almenns stúdentsprófs, stúdentsprófs að loknu starfsnámi eða framhaldsskólanámi af hvaða tagi sem er. Einingarnar sem nemendur öðlast á matsönn verða metnar og öðlast nemendur þannig  rétt til þess að innrita sig í framhaldsáfanga í viðkomandi greinum þegar þeir hefja nám í VMA  að hausti eftir því sem við á.

Fyrirkomulag: Nemendur koma til kynningar dagana 14. apríl og 27. maí kl. 16-19  þar sem þeir hitta skólastjórnendur, námsráðgjafa og kennara. Farið verður yfir helstu þætti er varða skipulag skólans og áfangakerfisins. Kynntar verða áfangalýsingar þeirra greina sem prófað verður í, farið yfir helstu atriði kennsluáætlana, gerð grein fyrir  kröfum um hæfni, þekkingu og færni og fyrirkomulagi prófa.

Gert er ráð fyrir að kennarar leggi verkefni og ýtarefni á Moodle-kennsluvefinn og annað sem gæti komið nemendum að gagni við  undirbúning. Ekki verður um eiginlega kennslu að ræða. Prófin fara fram fimm daga í byrjun júní  kl. 16-18 og verður gefin út próftafla þegar nær dregur og send umsækjendum.  Umsækjendum sem búsettir eru utan Akureyrar og nærliggjandi byggðarlaga verður gefinn kostur á að gista á heimavist VMA og MA meðan á prófatíð stendur.

Kostnaður: Nemendur greiða lögbundið innritunargjald, sem gildir jafnframt inn á haustönn, auk sérstaks próftökugugjalds. Verður kappkostað að stilla því í hóf, segir í fréttatilkynningu frá VMA.

Nýjast