Tvö góðgerðarfélög á Akureyri, Matargjafir á Akureyri og nágrenni og Norðurhjálp greiða á bilinu tvær til þrjár milljónir, hvort félag inn á bónuskort í hverjum mánuði hjá fólki sem ekki nær endum saman og þarf að leita aðstoðar til að hafa í sig og á. Mikil aukning hefur verið og eykst fjöldinn sem þarf hjálp sífellt. Því hefur þurft að grípa til þess ráðs að lækka þá upphæð sem til ráðstöfunar er hjá hverjum og einum.
Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum segir að peningar sem til ráðstöfunar hverfi fljótt og oft komi upp sú staða að enginn peningur sé til. „Beiðnum fjölgar stöðugt, staðan verður æ verri og róðurinn þyngist,“ segir hún og bætir við að það auki á erfiðleika að fáum sé nú til að dreifa sem aðstoða félagið. Það eigi því láni að fagna að margir hafi haldið hollustu við það lengi en margir sem hafi lagt því lið séu nú sjálfir komnir í þá stöðu að berjast í bökkum og þurfi jafnvel að leita aðstoðar sjálft.
Nístir hjartað að sjá börn líða fyrir ástandið
„Það hefur allt hækkað gríðarlega mikið nema launin, þau hækka lítið og því eru það æ fleiri sem lenda í því að hafa ekki úr nægu fé að spila til að framfleyta sér og sínum. Ég tel mig hafa séð ýmislegt í þessu starfi en staðan hefur aldrei verið verri en nú og því miður sjáum við ekki nein teikn á lofti um að bjartari tímar séu fram undan. Ég finn að margir kvíða vetrinum og mér sýnist að hann verði mörgum erfiður,“ segir Sigrún. „Þetta er sorgleg staða og sérstaklega nístir það hjarta mitt að horfa upp á börn þurfa að líða fyrir þetta skelfilega ástand.“
Sigrún Steinarsdóttir
Sigrún nefnir einnig að fjölgun hafi orðið í hópi eldri borgara sem þurfa að fá aðstoð til að komast í gegnum hvern mánuð. „Það er átakanlegt líka að sjá hversu margir úr þeim hópi eiga erfitt, fólk sem hefur unnið baki brotnu allt sitt líf en á svo vart til hnífs og skeiðar á sínum efri árum.“
Fjöldinn eykst með hverjum mánuði
Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir hjá Norðurhjálp á Akureyri segir að þar á bæ hafi líkt og hjá Matargjöfum orðið mikil aukning þeirra sem leita aðstoðar. „Fjöldinn eykst alltaf á milli mánaða, hver nýr mánuður toppar þann fyrri í fjölda,“ segir hún en bæði Norðurhjálp og Matargjafir eru að jafnaði að greiða út á bilinu tvær til þrjár milljónir króna inn á bónuskort og með því að deila út matvælum sem þeim áskotnast frá einstaklingum og félögum. „Við höfum þurft að lækka upphæðina sem við greiðum út, hver og einn fær á bilinu 10 til 15 þúsund krónur og eina slíka greiðslu í mánuði. Þörfin er meiri en við ráðum ekki við meira en þetta.
Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir
Sæunn finnur vel fyrir kvíða hjá þeim sem til Norðurhjálpar leita og segir marga horfa fram á erfðan vetur. „Það eru mjög margir í viðkvæmri stöðu. Ég tek á móti fólki og heyri sögur alla daga af þeim erfiðleikum sem það er að glíma við og óneitanlega situr maður eftir hugsi yfir því hversu margir eru illa staddir. Örvæntingin er mikil og oft er maður bara hérna með tárin í augunum. Því miður sjáum við ekki fram á að jákvæðar breytingar séu í vændum og það gerir þetta enn erfiðara.“