Mætast Akureyri og FH þrisvar í röð?

Svo gæti farið að Akureyri og FH leiki sinn þriðja leik í röð í handbolta karla næstkomandi mánudagskvöld þann 21. febrúar. Það fer þó eftir því hvernig leikir 14. umferðar N1-deildarinnar spilast annað kvöld.

Þriðji hluti deildarinnar hefst á mánudagskvöldið kemur og þá sækir toppliðið, sem verður Akureyri, það lið heim sem verður í fjórða sætinu. Það verður annaðhvort HK eða FH. Akureyri sló FH út úr bikarnum sem kunnugt er sl. mánudag á heimavelli og mætast liðin aftur í Höllinni annað kvöld í deildinni.

Fari svo að FH verði fjórða í sætinu eftir leiki morgundagsins eru Akureyri og FH að fara mætast í þriðja sinn á átta dögum í næstu umferð. Sá leikur yrði þá á heimvelli FH í Kaplakrika.

Nýjast