Lokaorðið - Mitt hjartans mál

Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Annar unglingurinn á heimilinu hefur verið í ökunámi undanfarnar vikur. Náköld krumla angistarinnar hefur gripið um hjarta mitt og herðir tökin dag frá degi. Æfingaaksturinn er framundan og kvíðinn er allsráðandi. Skyldi ég komast lífs af frá æfingaakstri með unglingi sem hvorki kann að, taka fötin sín upp af gólfinu, laga til í herberginu sínu, búa um rúmið sitt, né setja saman kurteislega orðaða setningu í samtali við móður sína. Illur grunur hefur læðst að mér undanfarnar vikur þegar vinir hafa komið í heimsókn til unglingsins og á meðan þeir dvelja inn í herbergi hans rignir til mín tölvupóstum um að barnið hafi staðist hin og þessi prófin í þessu og hinu í ökuskóla í netheimum. Ég tel rétt að ganga frá mínum málum áður en æfingaaksturinn hefst.

Nýjar hættur.

Í umferðinni leynast margar hættur og þær blasa ekki allar við nema grannt sé skoðað. Þeir sem nú eru í ökunámi þurfa að þekkja þessar hættur og kunna að bregðast við þeim. Allir þekkja hefðbundnar hættur sem stafa af sauðfé á vegi og við hann, börnum að leik, körlum með hatta og drukknum framfirðingum á leið úr kaupstaðarferð. En blessaðir unglingarnir þurfa að læra að gæta sín á fólki sem gengur um með síma fyrir andlitinu, rafhlaupahjólum sem ekið er fyrirvaralaust þvert yfir veginn og ýmsu öðru sem bæst hefur við í flóru umferðarinnar.

Í sumar bættist svo við ný vá sem engum hafði í hug komið. Eftir viðamiklar rannsóknir og eflaust hópvinnu undir stjórn verkefnisstjóra hefur Vegagerðin komist að því að veruleg slysahætta sé af hjartalaga rauðum ljósum umferðarljósa á Akureyri. Þeir halda því fram að hjartalaga umferðarljós dragi að sér of mikla athygli vegfarenda. Eftir á að hyggja hefði maður átta að geta sagt sér það sjálfur. Í rauninni segir það sig sjálft að það er lífshættulegt ef ökumenn bifreiða veita rauðum ljósum of mikla eftirtekt. Ökumenn geta ekki einbeitt sér nema að einu í einu. Og Vegagerðin telur greinilega að það bjóði hættunni heim ef ökumaður veitir rauðu ljósi við gatnamót athygli í stað þess að einbeita sér að því að aka yfir gatnamótin.

Málið virkar svo kjánalegt að ég get ekki stillt mig um að flimta með það. En það alvarlega í þessu er að í þessa kjánalegu uppákomu hefur verið varið fé sem tekið er af vinnandi fólki í formi skatta. Það er beinlínis lagt út í kostnað til að greiða fólki laun svo hægt sé að koma í veg fyrir að vegfarendur veiti rauðum umferðarljósum of mikla athygli.

Að setja kíkinn fyrir blinda augað.

Faðir minn heitinn minntist oft á Nelson flotaforingja og talaði um að setja kíkinn fyrir blinda augað þegar einhver agnúi var svo smávægilegur að það svaraði ekki kostnaði eða fyrirhöfn að eltast við hann. Það skyldi þó ekki vera að sú aðferð hentaði í hinu stóra hjartans máli Vegagerðarinnar.

Það er ekki endilega víst að heppilegt sé að beita opinberu valdi þó það sé mögulegt. Ég minnist þess þegar ég var ungur lögregluþjónn á varðgögnu í miðbæ Akureyrar. Lögreglan hafði þá það hlutverk meðal annars að leggja á menn sektir fyrir stöðumælabrot og fyrir að leggja bifreiðum sínum ólöglega. Í lögreglusamþykkt Akureyrarbæjar stóð þá að þegar bifreið væri lagt á vegi skyldi það gert hægra megin á tvístefnuakstursgötum en vinstra megin þar sem einstefna væri. Skyldu bæði hjól sömu hliðar þá vera jafn langt frá gangstéttarbrún. Það hefði verið hægt að raka saman umtalsverðu fé með því að ganga með tommustokk á allar kyrrstæðar bifreiðar og mæla fjarlægð hjóla frá gangstéttarbrún, því ólíklegt má telja að nokkur hafi náð að leggja bíl sínum þannig að ekki skeikaði sentimetra í það minnsta.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er okkur ætíð hollt að velta því fyrir okkur hvort það sem við tökum okkur fyrir hendur sé endilega mikilvægast þeirra verkefna sem fyrir okkur liggja. Í þessu tiltekna máli hljótum við að spyrja okkur hvort launum þeirra starfsmanna sem eru rauðu ljósin á Akureyri svo mikið hjartans mál, væri ef til vill betur varið til annarra verkefna Vegargerðarinnar - svo sem til vegagerðar.

 

Nýjast