Íslensku menntaverðlaunin voru veitt á Bessastöðum í vikunni. Verkefnið Lítil skref á leið til læsis hlaut verðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni varðandi málörvun og læsi. Verkefnið er samstarfsverkefni Borgarhólsskóla og leikskólans Grænuvalla á Húsavík, Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri og Natöschu Damen sjúkraþjálfara. Beinist verkefnið að auknu samráði kennara á milli skólastiga, öflugi foreldrafræðslu og aðkomu sjúkraþjálfara.
Afurð verkefnisins verður leiðarvísir sem kennarar geta nýtt sem ramma eða kveikju fyrir hliðstæð verkefni og þar er að finna hugmyndir um hvernig hægt er að vinna faglega að því að efla samstarf á mörkum skólastiga með aðkomu kennara, foreldra og barna.
„Við erum ákaflega stolt af þessu verkefni og veitingunni fylgir bæði viðurkenning og hvatning til framtíðar að byggja á þeirri fagmennsku sem hefur orðið til í þessu verkefni”, segir Þórgunnur Reykjalín skólastjóri í tilkynningu á vef Borgarhólsskóla. Hún bætir við að það standi og falli með hugmyndauðgi kennara og þeirra gleði til að skapa aðstæður sem skapa mikinn áhuga hjá nemendum á læsi, stöfum og umhverfi sínu í heild sinni. Hún segir jafnframt að samstarf kennara og skólastiga hafi verið stórkostlegt og starfsfólk lagt mikið á sig og prófa nýja hluti. ,,Við munum nota þessa viðurkenningu til frekari vaxtar og þróunar á öflugu skólastarfi."
