Laugardaginn 27. september kl. 15 verða fimm sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Óli G. Jóhannsson – Lífsins gangur, Bergþór Morthens – Öguð óreiða, Barbara Long – Himnastigi, Sigurd Ólason – DNA afa og sýndarveruleika innsetningin Femina Fabula. Á opnun verður boðið upp á listamannaspjall með Bergþóri Morthens og Barbara Long kl. 15.45 auk þess sem Kristján Ingimarsson verður með kynningu á Femina Fabula kl. 16.10.
Djúp tenging við náttúruna og margbreytileikann
Verk Óla G. Jóhannssonar endurspegla djúpa tengingu við náttúruna og margbreytileika lífsins. Hann er þekktur fyrir greinilegan abstrakt expressjónískan stíl, þar sem kraftar náttúrunnar – sólin, vindurinn og hafið – flæða í gegnum verkin.
Leið Óla að listinni tók óvænta stefnu þegar hann lenti í alvarlegu sjóslysi sem sjómaður um miðjan tíunda áratuginn. Þetta óvænta atvik varð vendipunktur og leiddi til þess að hann helgaði líf sitt alfarið málverkinu.
Verk Óla, mótuð af áhrifum COBRA-hreyfingarinnar, umbreyta hverfulum augnablikum og minningum listamannsins í varanleg form, sem draga fram fegurð þeirra og dýpt. Þau voru eins konar móttökutæki fyrir það markverðasta sem á daga hans dreif – náttúru, tilfinningar og strjál augnablik – sem um leið vekja til umhugsunar um jarðlífið.
Á átttugasta afmælisári Óla G. heiðrum við minningu og hæfileika hans til að fanga lífsins hráu fegurð og margbreytilega. Verkin lifa áfram sem dýrmætur arfur er tengir áhorfandann við náttúruna og hið mannlega.
Óljós mörk á milli málverks og skúlptúrs
Í verkum Bergþórs Morthens eru mörkin á milli málverks og skúlptúrs óljós, en efnin þau sömu, rétt eins og litirnir og meðferð þeirra. Myndheimurinn er lifandi og verkin flökta á milli myndrænnar túlkunar og hins óhlutlæga. Skilin á milli innra og ytra yfirborðs og þess sem liggur undir verða óljós, í gróteskum og brengluðum formum sem hylja, en afhjúpa á sama tíma. Óhóf og ofhlæði, þar sem ferlið við verkin endurspeglar öfgakennda efnishyggju samfélagsins: uppbygging og niðurrif, sköpun og eyðilegging. Verkin vísa í sögu, samtíma, dægurmenningu, listasögu, pólitík, hið undarlega og hið gróteska.
Bergþór Morthens
Bergþór Morthens lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og meistaranámi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Verk hans hafa verið sýnd á Íslandi, í Svíþjóð, Danmörku, Grikklandi og Rúmeníu.
Snerting með varúð
Barbara Long er fædd í Newark-on-Trent í Englandi 1960, en er nú búsett í Madríd. Í útbreiddri, gagnvirkri og yfirgnæfandi innsetningu sinni, Himnastiga, kannar hún hringrás lífsins, skin og skúri í eigin lífi, ásamt fortíð, nútíð og framtíð. Með 65 þrepum, rúmlega 30 metrar að lengd, táknar innsetningin líf hennar til dagsins í dag og möguleikann á framtíð til 100 ára aldurs. Innsetningin er eingöngu gerð úr endurnýttum textíl og efni úr lífi listakonunnar og er hvert þrep bólstrað með rauðlituðu taui, með vísun í ár í hennar lífi.
Barbara Long
Í sveigjanleika sínum og lífrænum strúktúr, minnir innsetningin á klifurplöntur í skógi sem skapa verndandi athvarf og varpa skuggum á nálæga veggi. Almenningi er boðið að kafa inn í verkið og snerta – með varúð.
Náttúrukraftur kvenleikans
Sýndarveruleika innsetningin Femina Fabula byggir á hugmyndum sviðslistakvennanna Kajsa Bohlin, Lalla la Cour, Anna Stamp, Noora Hannula, Tuba Keleş og Linh Le. Verkin urðu til í samvinnu þeirra við myndlistarkonuna Kirsty Whiten og leikstjórann Kristján Ingimarsson, sem er listrænn stjórnandi verksins.
Þessi alþjóðlegi hópur kannar samband sitt við heiminn og möguleika hins skapandi menningar- og náttúrukrafts sem býr í kvenleikanum. Vinnuaðferðirnar felast að miklu leyti í sameiginlegum ferlum og samskiptum við lífsformið.
Femina Fabula
Á sýningunni má sjá sex verk með aðstoð sýndarveruleikagleraugna, þar sem listakonurnar tjá kvenlega næmni og krafta í gegnum vinnuferli hverrar og einnar, í nánu sambandi við mismunandi landslag þar sem litið er til náttúruaflanna, matarins og jarðarinnar.
Upptökur annaðist Kristján Ingimarsson og hefur samvinna hans við listamennina Andro Manzoni og Áka Frostason (Folding House Production) gert áhorfendum kleift að fara inn í kúlulaga hljóðheim tilvistarlegrar ljóðrænu og veröld lifandi mynda. Framleiðandi er KIC (kicompany.dk).
Listræn áhrif afa
Sigurd Ólason er fæddur í Kaupmannahöfn og hefur verið skapandi frá unga aldri. Þátttaka í námskeiðum hjá Louisiana listasafninu, listræn tilraunastarfssemi og áhrif frá afa hans hafa leitt hann í átt að abstrakt list.
Málverk hans eru sprottin frá innsæi. Pensilstrokurnar eru milliliðalaus viðbrögð við tilfinningum og reynslu. Ferlið er einskonar jafnvægi milli sjálfsprottinnar tjáningar og djúprar ígrundunar. Þótt verkin endurspegi áhrif frá abstrakt expressionisma og Bauhaus, umbreyta þau þessum áhrifum yfir í eitthvað persónulegt og samtímalegt.
Sigurd Ólason
Málverkin eru bæði persónuleg og opin. Þau eiga rætur að rekja í lífsreynslu en eru þó laus við fastmótun. Þau bjóða áhorfandanum uppá samtal og eigin túlkun.