Líkhús og kapella rekin án stuðnings frá hinu opinbera

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að það finnist viðunandi lausn á þessu máli," segir sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur í Akureyrarkirkju um þá stöðu sem uppi er í rekstri Kirkjugarða Akureyrar.  Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar nefndi í samtali við Vikudag á dögunum að engum bæri lagaleg skylda til að reka líkhús og kapellu hér á landi, en það gera Kirkjugarðar Akureyrar.   

Ekkert fé fæst frá hinu opinbera til að stranda straum af þessum rekstri og er róðurinn því mjög þungur hjá kirkjugarðinum því taka þarf af rekstrarfé þeirra til að reka líkhúsið. Líklegt er að umhirða kirkjugarðanna verði minni á komandi sumri en oft áður þar sem mæta verður minnkandi fjármagni til rekstrarins með einhverjum hætti.  Þá nefndi Smári að einn möguleikinn í stöðunni væri að loka líkhúsinu, en vonaði að til þess þyrfti ekki að koma.

„Kirkjugarðarnir veita þjónustu sem við getum ekki án verið. Einhvern tíma heyrði ég að útlit og umhirða kirkjugarðs segði mjög mikið um viðkomandi samfélag. Þjónusta útfararþjónustu er líka dýrmæt. Þar er verið að aðstoða fólk sem stendur á erfiðustu tímamótum ævi sinnar. Þessi mál hafa verið í góðu ástandi hér og þannig þarf það að vera áfram," segir sr. Svavar.

Nýjast