Leiklistarhátíðin Þjóðleikur hafin á Akureyri

Leiklistarhátíðin Þjóðleikur, sem haldin er í fyrsta sinn á Norðurlandi, var sett formlega í dag. Það var Ingimundur Sigfússon formaður Þjóðleikhúsráðs sem setti hátíðina, neðst í Listagilinu á Akureyri, eftir að þátttakendur höfðu gengið fylktu liði frá Rósenborg niður Gilið. Listagilið á Akureyri varð fyrir valinu, sem frábær staðsetning til að leiða saman ungt fólk í sviðslistum og almenning á Norðurlandi.  

Í Listagilinu munu Norðlendingar og gestir þeirra eiga vona á sannkölluðu veisluhlaðborði sviðslista þar sem 11 leikhópar ungmenna af öllu Norðurlandi stíga á stokk með þrjú ný leikverk. Sýningar verða á klukkutíma fresti frá kl. 17-19 í dag föstudag og frá kl. 10-19 á morgun laugardag, ýmist í Ketilhúsinu, Deiglunni eða Rósenborg.  

Þjóðleikur er stórt leiklistarverkefni sem haldið er á öllu Norðurlandi í samstarfi við Þjóðleikhúsið og fjölmarga áhugasama aðila. Verkefnið nær til alls Norðurlands en  þáttakendur eru á aldrinum 13-20 ára og koma frá Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Fjallabyggð, Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Húsavík, Öxarfirði og Langanesbyggð.

Leikverkin eru eftir upprennandi íslensk leikskáld, þau Jón Atla Jónasson,  Kristínu Ómarsdóttur, Brynhildi Guðjónsdóttir og Ólaf Egil Egilsson en þau síðastnefndu skrifuðu eitt verk í sameiningu.

Nýjast