Leiðindaveður gert skíðafólki erfitt fyrir síðustu tvær helgar

Það hefur ekki gengið þrautarlaust fyrir skíðaáhugamenn að skella sér á skíði í Hlíðarfjalli sl. tvær helgar. Skíðasvæðið var alveg lokað um þar síðustu helgi og um nýliðna helgi var aðeins opið í fjallinu fram til kl. 13.30 á laugardag en alveg lokað í gær, sunnudag, vegna veðurs. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli segir þetta bagalegt, enda voru margir skíðamenn komnir langt að, bæði nú um helgina og helgina áður.  

Guðmundur bendir á sem dæmi, að um 200 manna hópur háskólafólks úr Reykjavík hafi komið norður í skíðaferð um þar síðustu helgi en þá var lokað bæði laugardag og sunnudag. Um þessa helgi var svo m.a. um 200 manna hópur frá Íslandsbanka í skíðaferð á Akureyri og gat fólk verið á skíðum fram á kvöld á föstudag og fyrri part laugardags. Guðmundur segir að það sé suðvestan áttin sem geri mönnum erfitt fyrir í fjallinu. Í dag, mánudag, er opið fram til kl. 19.00, töluvert hefur snjóað og er skíðafærið mjög gott, að sögn Guðmundar.

Desember og janúar hafa verið frekar leiðinlegir í vetur en Guðmundur segir að nú fari skíðavertíðin í gang af fullum krafti. Góð veðurspá sé fyrir vikuna og næstu helgi og nægur snjór er í fjallinu. Um 50 manns mættu á kynningarnámskeið í skíðagöngu, sem TVG-Zimsen bauð upp á í Hlíðarfjalli í samstarfi við Skíðafélag Akureyrar sl. fimmtudag, þrátt fyrir leiðindaveður. Slík námskeið verða í boði fyrir áhugasama næstu þrjá fimmtudaga. Fyrstu helgina í mars er von á 90 manna hópi Færeyinga á skíði í Hlíðarfjalli og helgina eftir koma um 90 Færeyingar til viðbótar í skíðaferð til Akureyrar.

Nýjast