Langflestir íbúar í Eyjafirði komnir með hitaveitu

Annar áfangi Reykjaveitu var tekinn formlega í notkun á dögunum en þessi áfangi nær frá Illugastöðum í Fnjóskadal til Grenivíkur og er stofnlögnin um 49 km löng. Áður var búið að leggja Reykjaveitu I, frá Reykjum að Illugastöðum. Fyrir um tveimur árum var lokið við að leggja hitaveitu á flesta bæi á Svalbarðsströnd, sem og þau hús á Svalbarðseyri sem ekki nutu hitaveitu áður. Hitaveita hefur því verið frá Garðsvík í austanverðum Eyjafirði, suður í Eyjafjarðarsveit og norður í Fagraskóg að vestan og nú hafa bæst við Fnjóskadalur og Grýtubakkahreppur. Þá rekur Norðurorka hitaveitu í Hrísey og Ólafsfirði og í Dalvíkurbyggð reka heimamenn eigin hitaveitu. Með þessari viðbót nú eru nær allir íbúar í Eyjafirði komnir með hitaveitu og aðeins þeir sem búa á afskekktum bæjum sem eiga þess enn ekki kost. Franz Árnason forstjóri Norðurorku segir það skoðun Norðurorku hf. að æskilegt sé að orku- og veitufyrirtæki á Norður-og Austurlandi hafi sem nánasta samvinnu og að nauðsynlegt sé að fyrirtækin á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum hefji strax viðræður um frekara samstarf eða samruna.

Nýjast