Krógaból hlaut stóran styrk úr Sprotasjóði

Stefán, Dagbjört, Davíð og Gunnlaugur nemendur á Krógabóli vinna með smáforritið Osmos. Mynd/aðsend
Stefán, Dagbjört, Davíð og Gunnlaugur nemendur á Krógabóli vinna með smáforritið Osmos. Mynd/aðsend

Eins og Dagskráin.is sagði frá í síðustu viku þá hlutu þrír leikskólar á Akureyri styrk úr sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2016 -2017. Einn þeirra leikskóla sem hlaut styrk er Krógaból.

„Það verður auglýst eftir verkefnatjóra í sumar, verkefnið fer af stað með haustinu eða 15. September,“ segir Anna R. Árnadóttir leikskólastjóri á Krógabóli í samtali við Dagskrána.is.

Krógaból  hefur frá haustinu 2014 verið í þróunarverkefni í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.

Veturinn 2014 til 2015 var leikskólinn í óstyrktu þróunarverkefni sem gekk út á að vinna með málörvun í gegnum leikinn og nota það námsefni sem leikskólinn hefur yfir að ráða á markvissan hátt og bæta við nýjum og spennandi leiðum.

Í febrúar 2015 sótti Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Krógaból um styrk í Sprotasjóð sem er fyrir  leik-, grunn-, og framhaldsskóla og fékk leikskólinn 2 milljónir til þróunarstarfs.

Heiti þróunarverkefnisins 2015 var: Læsi og námsumhverfi í leikskólanum – að koma til móts við nýja kynslóð

 Snjalltæki eru gefandi viðbót

Í þróunarverkefninu í vetur eru áhrif snjalltækja á læsisþróun ungra barna skoðuð út frá yfirskriftinni  „hagnýtt læsi á öllum námssviðum“  og þá hugtakinu snjalllæsi. „Snjalltæki eru gefandi viðbót við læsisnám og málþroska ungra barna sé vel og faglega að slíkri vinnu staðið. Með þeim má stuðla að hagnýtu læsi, snjalllæsi ungra barna og um leið auka fjölbreytni og svigrúm til frekara náms á öllum námssviðum,“ segir Anna.

Markmiðið með þróunarverkefninu er: Að vinna með málþroska og læsi í gegnum leik og setja markvisst upp læsishvetjandi leiðir. Skapa umhverfi sem örvar og hvetur nemendur til að nýta sér snjalltæki og öpp tengd orðum, hugtökum, bók– og tölustöfum, ritmáli, samræðum, hlustun, lestri, tjáningu og miðlun.  Að efniviður, leikföng og snjalltæki stuðli að uppgötvun og námi barna í gegnum leikinn. „Það er alltaf einhver ákveðinn tilgangur með snjalltæki þegar það fer inn á deild. Það er ekki bara verið að vinna með þetta frá átta til fjögur. Mörg verkefni auka orðaforða og æfa hljóð og þegar unnið er í hópum þá kenna krakkarnir líka hvert öðru,“ segir Anna.

Lögð er áhersla á að nota snjalltækni eins og hvert annað námsefni. Tengja snjalltæknina inn í starfið og vinna með hana ásamt öðrum námsgögnum. Lilja og Friðrik á Krógabóli apríl 2016

3,5 milljónir úr Sprotasjóði

Í febrúar á þessu ári var ákveðið að sækja aftur um í Sprotasjóð í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar Hákskólans á Akureyri og fékk Krógaból styrk nú í apríl upp á 3,5 milljónir til frumkvöðla- og nýsköpunar. „Þetta er stærsti styrkur sem veittur hefur verið leikskóla,“ segir Anna og bætir við: Við erum mjög hamingjusöm með að hafa fengið þennan styrk, m.a. vegna þess að í leikskólanum er það þannig að leikskólakennari er allan daginn með barnið með sér, þá er oft erfitt að funda þegar við vinnum svona þróunarverkefni, þetta bætist þá bara ofan á starfið náttúrulega. Þarna er verið að sýna fram á að það þarf stundum að koma til verkefnastjóri þegar við erum með svona mikla innleiðingu,“ segir  Anna glöð í bragði. „Það er ekki oft sem veittur er styrkur til svona verkefnastjóra í þróunarstarfi.“

„Nýsköpun er að búa til eitthvað nýtt eða endurbæta það sem þegar er til staðar og í raun undirstaða framþróunar. Með því að hugsa út frá nýsköpun eru meiri líkur til þess að starfsfólk setji sitt mark á starfið,  eigi hlutdeild í því, verði jákvæðara gagnvart breytingum, auki samstarf og um leið verði menning skólans faglegri og í takt við samfélag í örri og síbreytilegri þróun.“

Starf verkefnastjóra verkefnisins er hugsað til að tryggja að vel takist til, verkferlar og umsjón hafi forgang og raunveruleg nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi eigi sér stað. Verkefnastjóri sér um að halda utan um innleiðinguna, aðstoða kennara og börn.

Sem fyrr segir hlutu tveir aðrir leikskólar á Akureyri einnig styrk úr sprotasjóði, Iðavöllur og Pálmholt en nánar verður fjallað um þau verkefni innan skamms./EPE.

Nýjast