07. september, 2007 - 14:39
Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson er kominn til Akureyrar en á sunnudag kl. 16.00 heldur hann tónleika í Íþróttahöllinni ásamt tveimur erlendum söngvurum og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Yfirskrift tónleikanna er; "Fyrir mömmu" en þeir eru haldnir til heiðurs Fanneyju Oddgeirsdóttur, móður Kristjáns, sem verður níræð 14. september nk. Kristján lét það verða sitt fyrsta verk við komuna til Akureyrar í vikunni að heilsa upp á móður sína, sem dvelur á Hlíð. Kristján sagði yndislegt að vera kominn til Akureyrar til halda þessa tónleika til heiðurs móður sinni og hann er öllu því fólki sem hefur unnið að því að koma þessu á koppinn, mjög þakklátur. Kristján hefur verið að syngja mikið að undanförnu bæði í Tékklandi og á Ítalíu og hann sagðist vera í hörkuformi. Með honum á tónleikunum verða Sofia Mitropoulos sópransöngkona og Corrado Cappitta baritónsöngvari og Kristján segir bæði eiga eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni. Hann er því spenntur fyrir sunnudeginum og lofar glæsilegum tónleikum. Fanney sagði það alveg stórkostlegt að fá þessa tónleika í afmælisgjöf. Hún er syni sínum og öðrum sem koma að málum mjög þakklát og bíður spennt eftir sunnudeginum.