Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings á dögunum var samþykkt beiðni Friðriks Sigurðssonar, D-lista, um lausn frá störfum í sveitarstjórn þar sem hann hyggur á flutning lögheimilis úr sveitarfélaginu. Ennfremur var samþykkt tillaga um Ernu Björnsdóttur sem forseta sveitarstjórnar út kjörtímabilið, en Friðrik hefur gegnt embættinu til þessa. Olga Gísladóttir tekur svo sæti Friðriks í byggðaráði, en þar hefur kona ekki átt sæti í langa hríð sem aðalmaður.
Á fundinum var einnig kosið í nefndir til eins árs, fjögurra ára og á hina ýmsu aðalfundi og er ekki að hægt að segja að þar hafi hlutur kvenna verið verulega fyrir borð borinn. Því konur gegna nú formennsku í fjórum af sex aðalnefndum Norðurþings, auk þess að skipa embætti forseta sveitarstjórnar.
Kolbrún Ada Gunnarsdóttir er formaður Félagsmálanefndar. Olga Gísladóttir, formaður Fræðslunefndar. Erna Björnsdóttir, formaður Æskulýðs- og menningarnefndar. Og Sif Jóhannesdóttir, formaður Skipulags- og umhverfisnefndar.
Karlar fara svo með formennsku í tveimur aðalnefndum, Sigurgeir Höskuldsson er formaður fimm manna Framkvæmdanefndar og Trausti Aðalsteinsson formaður þriggja manna Hafnanefndar, en þarna var einni nefnd, Framkvæmda- og hafnanefnd, skipt upp í tvær. Og reyndar sitja eingöngu karlar í síðasttöldu nefndunum, sem er auðvitað brot á jafnréttisstefnu Norðurþings sem samþykkt var í desember s.l., en þar er ákvæði um að kynjahlutfall skuli vera sem jafnast í nefndum og ráðum. Raunar bregst þetta einnig í þremur nefndum öðrum, þar sem eiga sæti fjórar konur og einn karl. En þegar upp er staðið þá ríkir, hvað fjölda fulltrúa í þessum sex nefndum samanlagt varðar, fullkomið jafnrétti, sem sé 14 konur og 14 karlar.
“Ég held að megi með réttu segja, eftir þessar vendingar, að staða kvenna í valdamestu embættum í stjórnkerfi Norðurþings sé orðin býsna sterk.” Segir Óli Halldórsson, sem sæti á í meirihluta VG og Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn. JS