Framhaldsskólinn stóð verulega höllum fæti í launamálum í nokkur ár áður en kreppan skall á og alvarlegur niðurskurður fjármuna til framhaldsskólastarfs hefur aukið enn á vandann. Hálfur annar milljarður hefur þegar verið tekinn út úr rekstri framhaldsskóla með beinum niðurskurði fjárframlaga og önnur eins upphæð sem ætluð var til framkvæmdar nýrra framhaldsskólalaga aldrei komist til skólanna heldur er horfin í skuldahít Ríkissjóðs.
Kaupmáttur dagvinnulauna framhaldsskólakennara hefur á tímabilinu frá 2007 til 2010 rýrnað um 12.6% en heildarlauna um 19%. Á sama tíma hefur nemendum fjölgað og fjöldi kennara nánast staðið í stað. Námshópar hafa stækkað og stór hluti kennara finnur fyrir streitu og álagi í starfi vegna aðgerða á vinnustöðum sínum sem tengjast kreppunni. Þjónusta skóla við nemendur hefur verið skorin niður sem birtist m.a. í minni stuðningi við nemendur, fábreyttara námsframboði og kennsluháttum og fjölmennari námshópum.
Framhaldsskólar landsins eru 35, þar af eru 16 í Reykjavík. Í stærsta framhaldsskóla landsins stunda um 2000 nemendur nám og í þeim minnsta í kringum 70. Fjöldi kennara í framhaldsskólunum er um 1700, segir í fréttatilkynningu.