Máli fólks sem notfærði sér kerfisvillu í gjaldeyrisviðskiptakerfi Glitnis var í dag sjálfkrafa vísað frá dómi á þeirri forsendu að saksóknarinn í málinu hefði í raun ekki umboð til að gefa út ákæruna. Það rekur dómstóllinn til þess að reglugerð um saksóknara efnahagsbrotadeildar gengur lengra en lagarammi heimilar og því hafi saksóknarinn ekki sjálfstætt vald til að ákæra. Er því ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi. Niðurstaða dómsins er því þessi: "Eftir úrslitum málsins og 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin kr. 300.000, að virðisaukaskatti meðtöldum." Úrskurðinn kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.