Kári Valtýsson hefur sent frá sér bókina Heift sem gefin er út af Sögum útgáfu. Bókin er sjálfstætt framhald af bókinni Hefnd sem kom út í fyrra. Kári er uppalinn Akureyringur en er búsettur í Reykjavík þar sem hann starfar sem lögmaður og skrifar í hjáverkum. Sögusviðið í Heift eru árin 1873-1882 og gerist sagan á gresjum Ameríku og Kanada.
Aðalsöguhetjan er Íslendingurinn knái, Gunnar Kjartansson sem í upphafi bókar berst við bágindi ásamt konu sinni og syni við Winnipeg-vatn í Kanada. Hann leitar svo á ný til Bandaríkjanna þegar fregnir berast af gullfundi við Svörtu-Hlíðar á Wyoming-svæðinu og freistar þess að bæta kjör sín og sinna. En draugar fortíðar elta Gunnar uppi á sléttum Bandaríkjanna og upphefst æsispennandi framvinda þar sem hefndarþorsti indíánans Gráa-Úlfs, rekur Gunnar í hermennsku undir forystu George A. Custer sem hefur verið falið að kveða niður indíánaóeirðir sem geisað hafa á sléttunum.
Um sömu mundir veldur hinn illræmdi útlagi Jesse James og gengi hans miklum ótta fyrir heiftarleg voðaverk og rányrkju. Hundelt af laganna vörðum fetar útlagagengið sig lengra inn á slétturnar þar sem blóðmettuð slóð þeirra rennur saman við slóð Gunnars. Uppgjör stríðandi fylkinga er óumflýjanlegt.