KA hélt sigurgöngu sinni í MIKASA-deild karla í blaki áfram er liðið sigraði Þrótt Reykjavík, 3:1, á útivelli í gærkvöld. Norðanmenn hafa nú unnið sjö deildarleiki í röð. Þróttur byrjaði hins vegar betur og vann fyrstu hrinuna 25:23 en KA þær þrjár næstu, 26:24, 25:22 og 25:18.
Að vanda var Piotr Kempisty stigahæstur KA-manna með 24 stig en hjá Þrótti var Ólafur Heimir Guðmundsson stigahæstur með 17 stig.
KA er á toppi deildarinnar með 18 stig eftir tíu leiki. HK og Stjarnan komu í næstu sætum með 15 stig en bæði lið eiga leik til góða á KA. Þróttur R. er í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig.
Það er stutt á milli leikja hjá KA-mönnum en þeir sækja Hilmar Sigurjónsson og félaga í Stjörnunni heim kl. 12:00 í dag.