KA fær ekki að leika á Þórsvelli í fyrsta heimaleiknum

KA mun ekki fá að spila fyrsta heimaleikinn gegn ÍR á Þórsvelli í 1. deild karla í knattspyrnu, en sá leikur fer fram á föstudaginn kemur. KA hafði leitast eftir því að fá afnot á Þórsvellinum fyrir fyrsta heimaleikinn í deildinni, þar sem Akureyrarvöllur er ekki tilbúinn. Er það vegna vallarskilyrða á Þórsvelli og veðurútlits næstu daga að stjórn Þórs tekur þessa ákvörðun. Einnig óskaði KA eftir að fá Þórsvöllinn í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar gegn Grindavík, miðvikudaginn 25. maí, og hefur verið gefið grænt ljós á það, verði vallaraðstæður og veður í lagi.

Það lítur því allt út fyrir að deildarleikur KA og ÍR fari fram innanhúss í Boganum á föstudaginn kemur.

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Þórs er eftirfarandi:

Með hliðsjón af vallaraðstæðum og veðurútliti næstu daga treystir framkvæmdastjórn Þórs treystir sér ekki á þessum tímapunkti til að gefa KA leyfi til að leika deildarleik gegn ÍR á Þórsvellinum föstudagskvöldið 20. maí. Þess í stað beinir framkvæmdastjórnin þeim tilmælum til forsvarsmanna Knattspyrnudeildar KA að óska eftir því við KSÍ að fá að spila leikinn í Boganum. Félagið er tilbúið að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru varðandi æfingar í Boganum til að gera KA og ÍR kleift að spila leikinn þar ef til þess kemur.

Framkvæmdastjórn Þórs samþykkir, með fyrirvara um að veður og vallaraðstæður verði viðunandi þegar þar að kemur, að KA fái að leika bikarleik sinn gegn Grindavík á Þórsvellinum miðvikudaginn 25. maí.
Framkvæmdastjórn Þórs lýsir jafnframt áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum varðandi tímasetningu á upphafi Íslandsmótsins í knattspyrnu og fjölda leikja í maímánuði. Þessi þróun er því miður í litlu samræmi hnattræna staðsetningu landsins.

 

Nýjast