KA komst í kvöld í 32- liða úrslit VISA- bikarkeppni karla í knattspyrnu, eftir 2:0 sigur gegn Draupni í Boganum í annarri umferð keppninnar. Það voru þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Haukur Heiðar Hauksson sem skoruðu mörk KA í seinni hálfleik. KA hafði mikla yfirburði í leiknum og hefði sigur liðsins hæglega geta orðið stærri en KA- menn fóru illa með nokkur dauðafæri í leiknum.
Fyrri hálfleikur leiksins var tilþrifalítill og fátt um fína drætti. KA var mun meira með boltann en tókst ekki skapa sér nein alvöru marktækifæri. Staðan markalaus í háfleik.
KA- menn fóru að gera harðari atlögu að marki Draupnismanna í seinni hálfleik og það skilaði marki á 53. mínútu. KA fékk þá hornspyrnu og barst boltinn til Hallgríms Mars Steingrímssonar sem þakkaði fyrir sig með góðu skoti í netið rétt utan vítateigslínu Draupnismanna og kom KA 1:0 yfir.
Þrátt fyrir nokkur úrvalsfæri tókst KA ekki að bæta við öðru marki fyrr en fjórum mínútum fyrir leikslok. Það gerði varnarmaðurinn Haukur Heiðar Hauksson með skoti af stuttu færi inn í teig Draupnismanna. Lokatölur 2:0 sigur KA.