Á bænum Skriðu í Hörgárdal búa hjónin Þór Jónsteinsson og Sigríður Kristín Sverrisdóttir ásamt börnum sínum fjórum þeim Eyrúnu 20 ára, Agnari Páli 15 ára, Agli Má 13 ára og Jónsteini Helga 11 ára. Við settumst niður með Sigríði og þremur af börnunum en Þór og Egill vou vant við látnir annarsstaðar og það víst ekki í fyrsta skipti. Við ræddum um lífið í sveitinni og ennfremur hvernig jólunum er háttað í sveitinni.
Sigríður hefur alltaf búið í Skriðu en þar er blandað bú og nóg að gera á hverjum einasta degi.
„Ég hef nú bara búið hér allt mitt líf en Þór bjó á Akureyri áður. Við erum búin að vera bændur hérna síðan 1998. Við tókum við af foreldrum mínum. Við vorum í félagsbúi frá 98-2004 og tókum við þessu 2004,“ segir Sigríður.
Á bænum er nóg um að vera á hverjum degi en mikill búskapur er á staðnum. Þar er 230.000 lítra mjólkurkvóti, 41 kýr, um 200 kindur og 70 hross ásamt því að nokkrar endur og kanínur fá að vera með. Svo eru hundar og kettir að sjálfsgöð á heimilinu. Fjósið er básafjós með brautarkerfi og húsmóðirin sér alla jafna um að fara í fjós, en það gerir hún alla morgna um hálf átta leytið og hálf sex á kvöldin og er í rúma 2 tíma í senn. Hún segir þó að stundum fari vinnufólk eða aðrir fjölskyldumeðlimir í fjós þegar þannig standi á. Mikil hestamennska er stunduð á bænum og er tamning og þjálfun hrossa mikill partur af búskapnum.
Krakkarnir duglegir að hjálpa til
Sigríður segir krakkana á heimilinu duglega að hjálpa til, hvort sem það er í eldhúsinu eða úti við sveitastörfin.
„Jónsteinn Helgi hann er yngstur og hann er duglegur að elda ofan í okkur og baka og svona ýmislegt, sem er náttúrulega heljarinnar mál á stóru heimili sko. Svo er Egill næstyngstur og hann er bara á fullu í búskapnum, hefur mikinn áhuga á þessu öllu saman, hestunum og kindunum mest. Svo er Agnar Páll og hann duglegur að gera allt sem maður segir honum að gera, góður í öllu. Hún Eyrún var nú áhugasöm bóndakona á yngri árum, en hún á það nú til að taka skorpur og hjálpa til, fara í fjós og svona.“
Það þarf líka að vinna á jólunum
Að halda jól í sveit er ólíkt því sem gerist í þéttbýli. Það er ekkert frí frá vinnu í sveitinni þó svo að það sé aðfangadagur, jóladagur eða gamlársdagur; það þarf alltaf að sinna skepnunum. En skepnurnar eru þeirra lífsbrauð og ekki kvartar fjölskyldan yfir lifnaðarháttum í sveitinni, það hefur sína kosti og alla að búa í sveit.
„Maður sleppir því náttúrulega ekki við að fara í fjós, maður sefur ekki út sko. En á aðfangadag þá mjólkum við fyrr og reynum að vera kominn inn klukkan 6. Á aðfangadagskvöld fer Þór og mjólkar og ég elda. Þá reynum við að fara út í verkin klukkan svona fjögur, en það er bara á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld sem við stelumst til að mjólka svona mikið fyrr,“ segir Sigríður.
Að öðru leyti segir hún að rútínan sé sú sama yfir hátíðarnar og aðra daga. Meginmunurinn á því að halda jól í sveit og í þéttbýli sé að sinna skepnunum og sætta sig við það að borða ekki jólamatinn endilega á slaginu klukkan sex. Veðrið spili einnig inn í.. Dæmi séu um að ættingjar þeirra hafi keyrt út af og setið fastir úti um alla sveit á jóladag þegar það eigi að halda árlega jólaboðið í Skriðu. Svo þarf að sjálfsögðu að vera búið að kaupa allt inn á tilsettum tíma. Maður þarf líka að passa sig að vera búinn að kaupa allt því maður skýst ekkert út í búð á aðfangadag ef það vantar eitthvað“.
Eins og flestar fjölskyldur eru stórfjölskyldan í Skriðu með sínar jólahefðir. Á hverju ári rölta þau saman út í skógarreit sem þau eru með sjálf og sækja sér jólatré. Á þorláksmessu er elduð skata í hesthúsinu og er haldin skötuveisla í hádeginu þar sem fjöldi manns koma saman. Eyrún, sú elsta af börnunum fjórum, lýsir aðfangadag þannig að hún vakni upp úr hádegi þegar búið sé að fara í fjós og gera ýmis verk og vekur það upp mikinn hlátur meðal bræðra hennar. Á sjálft aðfangadagskvöld er önd í matinn og á jóladag koma margir ættingar í heimsókn. Gamlárskvöldi eyða þau síðan á Akureyri, en þau hafa þó einu sinni þurft að eyða því í sveitinni vegna ófærðar.
Jónsteinn Helgi, sá yngsti, kom því svo sérstaklega á framfæri að pabbi hans svindlaði í möndlugrautnum á hverju einasta ári, hann væri orðinn langþreyttur á þessu og óskaði eftir því að pabbi hans færi að hugsa sinn gang.
Með þessum orðum kveðjum við fjölskylduna í Skriðu og óskum þeim gleðilegra jóla.
- ÁGM