Jafnt í hörkuleik Hauka og Akureyrar á Ásvöllum

Haukar og Akureyri gerðu í kvöld jafntefli, 23:23, í hörkuleik á Ásvöllum í N1-deild karla í handbolta. Staðan í hálfleik var jöfn, 11:11. Þessi úrslit þýða að Akureyri verður eitt á toppnum er hlé verður gert á deildinni, en vegna HM verður ekki leikið næst fyrr en 3. febrúar. Akureyri hefur 19 stig á toppnum en Haukar hafa 13 stig í fjórða sæti.   

Bjarni Fritzson var markahæstur Akureyringa með 7 mörk, þar af 3 úr vítum, og þeir Oddur Gretarsson og Heimir Örn Árnason komu næstir með 4 mörk hvor. Í marki norðanmanna varði Sveinbjörn Pétursson 15 skot.

Hjá Haukum voru þeir Þórður Rafn Guðmundsson og Guðmundur Ólafsson markahæstir með 5 mörk. Í marki Hauka átti Birkir Ívar Guðmundsson góðan leik en hann varði 21 skot, þar af 2 víti.

Nýjast