Íþróttaráð leggst gegn kvartmílubraut

Íþróttaráð Akureyrar leggst að svo stöddu gegn lagningu kvartmílubrautar í fullri lengd á fyrirhuguðu akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar á Glerárdal. Ráðið leggur til að lögð verði braut sem fullnægi kröfum um ökugerði og hafi þannig þau áhrif að draga úr mögulegri hávaðamengun. Þá er bent á þann möguleika að færa þá reiðleið sem er hvað næst aksturíþróttasvæðinu. Mál þetta var tekið fyrir á fundi íþróttaráðs í síðustu viku en því hafði verið frestað á fundi ráðsins 10. júlí sl.Til viðbótar fyrirliggjandi gögnum var lögð fram umsögn af hálfu Hestamannafélagsins Léttis, frá Ólafi Hjálmarssyni verkfræðingi um hljóðmælingarskýrslu Línuhönnunar sem unnin var fyrir Akureyrarbæ sem og bréf frá lögfræðingi Léttis, Arnóri Halldórssyni. Íþróttaráð telur áætlaðar hljóðvarnir sem fram koma í deiliskipulagstillögu Halldórs Jóhannssonar fyrir fyrirhugað akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar á Glerárdal fullnægjandi að teknu tilliti til hljóðmengunar og öryggis hestamanna sem hafa aðstöðu sína í næsta nágrenni svæðisins. Ráðið beinir því til skipulagsnefndar að brugðist verði við framkomnum athugasemdum Hestamannafélagsins Léttis við skýrslu Línuhönnunar á viðeigandi hátt. Ráðið samþykkir fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir sitt leyti samkvæmt ofangreindri breytingartillögu.

Nýjast