Íslandsmótið í krullu hálfnað

Íslandsmótið í krullu er nú hálfnað en lokaumferð í fyrri hluta mótsins var leikin í gærkvöld. Sjö lið, öll úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar, taka þátt í mótinu og er leikið allir við alla, tvöföld umferð. Þetta er í tíunda sinn sem leikið er um Íslandsmeistaratitilinn í krullu, en sigurliðið fær rétt til að leika á Evrópumótinu í krullu, C-keppni, fyrir Íslands hönd.  

Garpar hafa forystuna nú þegar mótið er hálfnað, en liðið vann alla leikina í fyrri hlutanum. Íslandsmeistarar Mammúta fylgja fast á hæla Garpa, hafa unnið fimm leiki og aðeins tapað einum, gegn Görpunum. Þessi tvö lið gera sig líkleg til að stinga hin liðin af en tvö lið eru með þrjá sigra og tvö með tvo sigra eftir fyrri hluta mótsins. Garpar hafa aldrei hampað titlinum, en Mammútar eru Íslandsmeistarar síðastliðinna þriggja ára.

Síðari hluti mótsins hefst næstkomandi mánudagskvöld, 28. febrúar en lokaumferðin fer fram mánudagskvöldið 28. mars. Leikið er á mánudags- og miðvikudagskvöldum í Skautahöllinni á Akureyri, þó ekki öll miðvikudagskvöld.

Nýjast