Allir eru velkomnir á ráðstefnuna, starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja, fulltrúar frá sveitarfélögunum, bæjar- og sveitarstjórar á Norðurlandi, fulltrúar Ferðamálastofu, Íslandsstofu, iðnaðar- og ferðamálaráðuneyti, Ferðamálaráð, Samtök Ferðaþjónustunnar, flugfélögin, rannsóknarstofnanir, háskólafólk, fulltrúar frá atvinnulífinu, verslunarfólk, bændur, matvælaframleiðendur, og allir þeir sem áhuga hafa á málefninu og vilja leggja sitt að mörkum til eflingar íslenskri ferðaþjónustu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra setur ráðstefnuna og í framhaldinu flytja innlendir og erlendir aðilar fyrirlestra. Á meðal fyrirlesara er Simon Calder, ritstjóri ferðamála hjá hinu víðlesna dagblaði The Independent í Bretlandi. Daginn fyrir ráðstefnuna mun Calder senda út sinn vikulega ferðaþátt á BBC beint út frá Akureyri. Hann ætlar að ferðast um Norðurland í nokkra daga fyrir ráðstefnuna og kynna sér svæðið og ferðaþjónustuna. Það er Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi sem stendur fyrir ráðstefnunni.