Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars fer fram í Menningarhúsinu Hofi í dag hádegisfundur undir yfirskriftinni „Uppeldi barna í anda jafnréttis“. Léttar veitingar verða í boði fyrir fundinn. Dagskráin er sem hér segir:
- 12.00 - Fundarstjóri, Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, setur fundinn.
- 12.05 - Brynhildur Þórarinsdóttir, móðir, rithöfundur og dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri: Þegar Messi fór að spila í prinsessubleiku - Hugleiðing um fyrirmyndir og staðalmyndir
- 12.20 - Jón Páll Eyjólfsson, faðir og leikhússtjóri Menningarfélags Akureyrar: Svarthöfði sigraður?
- 12.40 - Umræður
- 12.55 - Ályktun fundarins borin upp
- 13.00 - Fundi slitið
Árið 1977 var ákveðið að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvenndagur Sameinuðu þjóðanna, en þessi dagur á sér lengri aðdraganda þar sem rússneska byltingin 1917 kom við sögu. Við skulum renna yfir sögu þessa merkilega dags.
Það var reyndar 19. mars en ekki þann 8. sem alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur. Árið var 1911 og það voru sósíalískar konur í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss sem stóðu að hátíðarhöldunum. Næstu árin áttu fleiri lönd eftir að bætast við m.a. Rússland. Árið 1914 komu þúsundir kvenna saman í Þýskalandi þann 8. Mars. Það var upphafið að fjölmennum mótmælafundum og kröfugöngum verkamanna og –kvenna. Mótmælin stóðu yfir í heila viku.
Þá skulum við færa okkur yfir til Rússlands. Árið 1917 hófu konur í Pétursborg verkfall þann 8. mars (samkvæmt okkar tímatali). Ástæður verkfallsins var krafa kvennanna um frið og betri kjör. Mikil andstaða var meðal pólitískra leiðtoga á verkfallsaðgerðunum og reyndu mikið að kveða það niður, m.a. með hervaldi. Konurnar héldu þó ótrauðar áfram, og hluti hermannanna gekk til liðs við þær. Þetta varð að lokum til þess að Nikulás II Rússakeisari sagði af sér fjórum dögum síðar. Bráðabirgðastjórn var komið á sem veitti konum kosningarétt. Rússneska byltingin var hafin.
Í kjölfar þeirra atburða sem verkfall verkakvenna í Rússlandi hafði hrint af stað; lagði Clara Zetkin til við Alþjóðasamband komúnista árið 1921 að framvegis yrði 8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Tillagan var samþykkt.
Eitthvað var þó misjafnt hversu vel þjóðir heims höfðu baráttudag kvenna í heiðri. Eftir því sem tímanum fleytti fram fór minna fyrir honum. Þegar Nasistar komust til valda í Þýskalandi var 8. mars breytt í mæðradag. Jafnframt voru öll samtök kvenna þar í landi bönnuð.
Í París árið 1945 ákvað Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna á stofnfundi sínum að 8. mars ætti að vera baráttudagur kvenna fyrir friði. Laufey Valdimarsdóttir var fulltrúi Kvenréttindafélags Íslands á fundinum.
Það var svo árið 1977 eins og áður segir að Sameinuðu þjóðirnar ljáðu deginum nýtt líf og gerðu 8. mars að þeim degi sem hann er í dag.
Innblástur og heimildir fyrir þennan pistil eru sóttar á kvennasogusafn.is. EPE.