HSN leggur niður heilsueflandi heimsóknir til aldraðra

HSN hefur aðstöðu í Sunnhlíð á Akureyri.
HSN hefur aðstöðu í Sunnhlíð á Akureyri.

Heilsueflandi heimsóknir til aldraðra á Akureyri sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur haft á sinni könnu verða lagðar niður 1. ágúst næstkomandi. HSN er með breyttu fyrirkomulagi að forgangsraða sínum verkefnum með því að beina kröftum sínum enn frekar til aldraðra einstaklinga sem í auknum mæli þurfa sérhæfða heilbrigðisþjónustu hvort sem er á heilsugæslu eða í heimahjúkrun. Velferðarráð Akureyrarbæjar hefur lýst yfir vonbrigðum með fyrirhugaða breytingu.

Guðný Friðriksdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSN segir ákvörðun byggða á endurskoðun á verkefnum HSN og aukna þörf fyrir sérhæfðari þjónustu fyrir aldraða „Við ætlum að beina sjónum í meira mæli að þeim hópi aldraðra sem búa við heilsuleysi og langvinna sjúkdóma, sem er í takt við aukna þjónustuþörf í þessum hópi.“

Ávallt reiðubúin til samráðs

Heilsueflandi heimsóknir voru áður fyrr samvinnuverkefni Akureyrarbæjar og Heilsugæslunnar eða frá árinu 2000. HSN tók við verkefninu árið 2015. Allir íbúar sveitarfélagsins 80 ára og eldri og búa heima hafa fengið eina heimsókn á ári. Guðný segir heimsóknir hafa fyrst og fremst falið í sér félagslega þætti, upplýsingamiðlun um félagsstarf og almenna ráðgjöf. „Við erum ekki hætt með fræðslu til aldraðra heldur munum við efla fræðslu sem snýr að heilbrigðistengdum málum til aldraðra gegnum heilsugæslu og félagsstarf aldraðra.“

„Í takt við aukna þörf munum við efla þjónustu við þá aldraða sem búast við hvað lakasta heilsu í gegnum heimahjúkrun og þjónustu og eftirlit á heilsugæslustöð við þá sem eru með langvinna sjúkdóma“ segir Guðný og vill ítreka að fræðslu í forvarnarskyni til aldraðra sé síður en svo hætt en verður með breyttu sniði. „Við höfum alltaf átt í góðu samstarfi við Akureyrarbæ og erum ávallt tilbúin til samráðs.“

Vonbrigði

Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs Akureyrarbæjar segir ákvörðun HSN um að leggja heilsueflandi heimsóknir niður valda miklum vonbrigðum. „Okkur þykir þetta mikilvæg þjónusta í sveitarfélaginu og teljum að þessi þáttur heilbrigðisþjónustu eigi heima innan heilsugæslunnar sem sinnir öllum aldurshópum, allt frá ungbarnaeftirliti og upp úr,“ segir hún og bendir á að forvarnir séu ein af meginstoðum farsældar fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu. „Það er kveðið á um það að heilbrigðisþjónustan skuli styðja og styrkja eldri borgara til sjálfshjálpar. Þessi ákvörðun gengur gegn því markmiði. Við í velferðaráði teljum að þessar heimsóknir skipti miklu fyrir íbúa sveitarfélagsins og hafi forvarnargildi til framtíðar. Því þykir okkur það bagalegt að leggja þetta verkefni niður,“ segir hún.

Nýjast