Hreyfing getur skipt sköpum í bataferli sjúklinga

Kristveig Atladóttir sjúkraþjálfari á SAk
Kristveig Atladóttir sjúkraþjálfari á SAk

Í dag 8. september, á alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar, hefst nýtt verkefni á Sjúkrahúsinu á Akureyri undir yfirskriftinni "HREYFUM OKKUR".

Verkefnið er unnið af sjúkraþjálfurum á SAk og miðar að því að hvetja sjúklinga til aukinnar hreyfingar meðan á innlögn stendur. „Hreyfing getur skipt sköpum í bataferli sjúklinga,“ segir Kristveig Atladóttir, sjúkraþjálfari á SAk.

Hreyfing skiptir miklu máli

„Margir upplifa að þegar þeir eru komnir í sjúkrarúm og sjúkrahúsföt eigi þeir að liggja kyrrir – að þeir eigi ekki að vera að þvælast um eða vera fyrir,“ segir Kristveig. „En hið gagnstæða er afar mikilvægt – smá hreyfing eins og að ganga á salerni, setjast á stól eða fara í stuttan göngutúr getur haft mjög jákvæð áhrif, bæði líkamlega og andlega.“

Hreyfingarleysi getur verið skaðlegt

„Rannsóknir sýna að hreyfingarleysi á sjúkrahúsi getur haft alvarlegar afleiðingar, meðal annars fyrir vöðva, liði og almenna heilsu,“ útskýrir Kristveig. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga á efri árum. Því eldri sem við verðum þeim mun lengur erum við að ná fyrri styrk og færni í kjölfar veikinda og hreyfingarleysis. Það getur því skipt sköpum að komast sem fyrst á hreyfingu til að geta yfir höfuð staðið aftur á fætur og komist heim. „Sjúklingum sem komast snemma á fætur og á hreyfingu vegnar betur og eiga auðveldara með að ná sér eftir slys og veikindi.“

Starfsfólkið og aðstandendur eru í lykilstöðu

„Starfsfólkið skiptir öllu máli,“ segir Kristveig. „Við þurfum öll að hvetja sjúklinga til að standa upp, hreyfa sig og klæða sig í eigin föt þegar það er hægt – jafnvel bara með því að tryggja greiðar leiðir og stóla á sínum stað.“ Hún bætir við að aðstandendur hafi einnig mikilvægu hlutverki að gegna. „Þeir geta hvatt sjúklinga til að hreyfa sig, boðið þeim á göngutúr og þannig bæði stutt við hreyfingu og skapað góða samveru. Til þess að svo megi verða þurfa aðstandendur að fá skýrar upplýsingar um mikilvægi hreyfingar og hvað sjúklingur má gera.“

„Náttfatalömun“

„End pyjama parlysis“ er alþjóðlegt átak sem hófst á Bretlandi 2018. Það miðar að því að hvetja sjúklinga að fara úr náttfötunum yfir daginn, klæðast eigin fötum, fara á fætur og hreyfa sig meðan á sjúkrahúsinnlögn stendur. Við höfum í auknum mæli verið að hvetja sjúklinga sem mögulega geta að fara í eigin föt yfir daginn segir Kristveig. Að klæðast eigin fötum ýtir undir góða sjálfsmynd og eykur líkur á að fara úr rúmi og hreyfa sig.

Hreyfihorn og veggspjöld

Til að styðja við verkefnið hafa verið sett upp Hreyfihorn á Lyflækninga- og Skurðlækningadeild, æfingastöðvar á göngum og hvatningarspjöld með einföldum leiðbeiningum fyrir starfsfólk, sjúklinga og aðstandendur. „Þetta er og verður að vera sameiginlegt verkefni okkar allra,“ segir Kristveig. „Draumaniðurstaðan er að hreyfing verði sjálfsögð meðan á innlögn stendur – þannig jafna sjúklingar sig hraðar og líður betur.“

Heimasíða SAk sagði fyrst frá.

Nýjast