Howell samdi við KA

Bandaríkjamaðurinn Dan Howell, sem verið hefur á reynslu hjá knattspyrnuliði KA síðustu vikur, gerði í gær samning við félagið sem gildir út komandi keppnistímabil en frá þessu er greint á heimasíðu KA.

Howell er framherji og hefur komið inn á í tveimur leikjum liðsins í Lengjubikarnum, í útileikjunum við Selfoss og Keflavík. Þá setti hann tvö mörk í æfingaleik við Dalvík á dögunum.

„Ég er hæstánægður með að hafa fengið Dan í okkar raðir. Hann hefur sýnt fína takta á æfingum hjá okkur og ég er þess fullviss að hann á eftir að nýtast okkur vel í sumar,” segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA á heimasíðu félagsins.

Nýjast