Mikið líf og fjör var í Háskólanum á Akureyri í síðustu viku þegar Nýnemadagar fóru fram. „Við tókum á móti nýnemum í grunnnámi en um er að ræða stærsta hóp nýnema frá upphafi eða um 1500 talsins. Þátttakan var mjög góð í ár og það var frábært að fylgjast með nýnemunum taka virkan þátt í dagskránni sem við bjóðum upp á,“ segir Sólveig María Árnadóttir sem heldur utan um skipulagningu og framkvæmd Nýnemadaga.
„Eðlilega getur verið mjög stressandi að mæta fyrsta daginn og einmitt þess vegna leggjum við, starfsfólk og stúdentar háskólans, ríka áherslu á að taka vel á móti nýjum HA-ingum og bjóða þá velkomna til okkar. Við pössum okkur að vera sýnileg og á staðnum þessa daga, enda viljum við vera persónulegur háskóli sem einkennist af öflugu samfélagi sem er til staðar. Þrátt fyrir að við séum sífellt að vaxa og stúdentahópurinn orðinn sá fjölmennasti frá upphafi þá höldum við fast í þessi gildi,“ segir Sólveig María. Í þessari viku eru svo nýnemar í framhaldsnámi að tínast í HA og það er einnig mikil aukning í framhaldsnám við háskólann.
Hress, glöð og tilbúin til að hjálpa
Anný Rós Guðmundsdóttir er nýnemi í iðjuþjálfunarfræði en hún er að hefja nám aftur eftir langa pásu. Upplifun hennar af Nýnemadögum er mjög góð. „Það var vel tekið á móti mér, fólk úti um allt og öll mjög hress, glöð og tilbúin til þess að hjálpa og leiðbeina. Þá skipti ekki máli hvort það var starfsfólk í tækniþjónustu, á bókasafni eða annað, öll ítrekuðu að við værum alltaf velkomin í heimsókn,“ segir Anný Rós sem er búsett á Húsavík en hún segist hafa valið iðjuþjálfunarfræði vegna þess að hún hafi starfað hjá þjónustukjarna fyrir fatlaða í nokkur ár. „Ég elska að hjálpa og vinna með fólki og mig langar til þess að hjálpa fólki með fatlanir að öðlast betra líf og finna lausnir í daglegu lífi til þess að einstaklingarnir geti gert hluti sjálf eða fengið réttu aðstoðina til þess að takast á við daglegt líf með starfskrafti.“
Anný Rós sér alls ekki eftir því að hafa mætt og tekið þátt í Nýnemadögum en hún telur mikið betra fyrir nýnema að mæta og sjá allt fólkið sem er tilbúið til þess að aðstoða auk þess sem það sé aukið öryggi að vita hvar og hvernig á að bera sig að í háskólanámi. „Ég var allavega mikið rólegri að hefja aftur nám að loknum Nýnemadögum, sennilega hafa partýin þó staðið upp úr hjá flestum en ég sleppti þeim þó.“
Kynnast kennurum í hópefli
Einn dagskrárliður Nýnemadaga er móttaka deilda og er misjafnt hvað deildir gera undir þeim lið. Síðustu ár hefur Iðjuþjálfunarfræðideild verið með hópefli. „Við fórum í hring og sögðum aðeins frá okkur sjálfum, okkur var þannig gefið tækifæri til þess að sjá hvað við eigum sameiginlegt í þeim tilgangi að hrista hópinn saman. Það var gaman að sjá að hópurinn átti það allur sameiginlegt að vilja hjálpa hvert öðru og gefa af sér en einnig hafa flest áhuga á útivist. Mér fannst hópeflið mjög gott og sérstaklega gaman að fá að hafa kennara með í því til þess að kynnast þeim,“ segir Anný Rós.
Anný Rós Guðmundsdóttir
Háskólasamfélagið á Akureyri stór partur af lífinu
Guðbjartur Daníel Guðmundsson, alltaf kallaður Bjartur, er ekki nýnemi við HA í fyrsta skipti en er núna nýnemi í lögreglufræði. „Ég hóf fyrst nám við HA haustið 2019 og þá í fjölmiðlafræði og var mjög hrifinn af því hvernig náminu var háttað. Námið var ótrúlega skemmtilegt, fjölbreytt og hentaði mér mjög vel og síðan þá hef ég ekki getað hætt,“ útskýrir Bjartur sem bætti við sig kennsluréttindum við HA að lokinni gráðu í fjölmiðlafræði. „Mér finnst háskólasamfélagið á Akureyri vera frábært og að það sé orðið stór partur af lífi mínu þó að ég búi fyrir sunnan. Ástæðan fyrir því að ég fór í lögreglufræði var vegna þess að hún hefur alltaf heillað mig eftir að ég fór í sumarafleysingar í lögreglunni á Suðurlandi 2024.“
Deildarforsetinn stóð upp úr
Bjartur fann eins og Anný fyrir gleðinni á Nýnemadögum. „Það var virkilega gaman að koma á Nýnemadaga, mikil gleði í loftinu og almennt góður andi enda margt flott og frambærilegt fólk sem er að hefja nám. Þá stóðu starfsfólk og stúdentar HA sig mjög vel í að taka á móti okkur,“ segir Bjartur aðspurður um Nýnemadaga.
„Ég verð þó að segja að kynningin hans Clayton, deildarforseta Félagsvísindadeildar, hafi staðið upp úr á Nýnemadögum, hann kom okkur öllum á óvart og starfsfólkinu líka sýndist mér. Hann var ekkert eðlilega fyndinn og skemmtilegur,“ rifjar Bjartur upp.
Clayton, deildarforseti Félagsvísindadeildar, fór á kostum
Umsækjendur í lögreglufræði þurfa að fara í gegnum annað inntökuferli en aðrir stúdentar HA og fá ekki boð um skólavist fyrr en þau hafa staðist alla þætti þess. „Inntökuferlið var skemmtilegt og krefjandi en öll sem sækja um í lögreglufræði þurfa meðal annars að standast þrekpróf til að komast á næsta stig. Þetta er eftirsótt nám og mörg sækja um og því er mikilvægt að velja rétta fólkið. Ef einhver sem er að lesa hefur áhuga á lögreglufræði þá myndi ég gefa þér það ráð að halda þér í formi, bæði líkamlega og andlega. Síðan er mikilvægt að láta ekki fyrir fram ákveðnar hugmyndir um lögreglustarfið vefjast fyrir sér. Skráðu þig í námið með opnum hug og gerðu ráð fyrir því að þú vitir ekki neitt en vertu fyrst og síðast samkvæmur sjálfum þér,“ segir Bjartur.
Það má alltaf á sig blómum bæta
Skólaárið leggst mjög vel í Bjart. „Það verður gott að komast í góða rútínu og setjast yfir bækurnar og námsefnið sem er mjög áhugavert í lögreglufræðinni. Síðan má alltaf við sig blómum bæta og hver veit nema ég verði búinn að skrá mig í annað nám við Háskólann á Akureyri þegar ég klára lögreglufræðina.“