HK gerði góða ferð norður yfir heiðar um helgina þegar liðið lagði KA tvöfalt í KA-heimilinu sl. laugardag á Íslandsmótinu í blaki.
HK vann karlaleikinn 3:2 eftir að hafa lent undir 2:0. Í kvennaleiknum vann HK örugglega 3:0 gegn KA, en með sigrinum komst HK á topp Mikasadeildarinnar. HK er með 15 stig í efsta sæti en KA hefur 12 stig í þriðja sæti.
Í karlaflokki er KA áfram á toppnum þrátt fyrir tapið með 21 stig, en HK fylgir fast á hælana með 19 stig og á leik til góða á KA.