Hjálp48 þjónusta Sorgarmiðstöðvar með þjónustusvæði á Akureyri og nágrenni

Teymi Hjálp48 ásamt leiðbeinendum námskeiðsins.  Mynd aðsend
Teymi Hjálp48 ásamt leiðbeinendum námskeiðsins. Mynd aðsend

Þjálfun fyrir Hjálp48 teymi Sorgarmiðstöðvar á Akureyri fór fram í Glerárkirkju nýverið. Þeir sem stóðu að baki þjálfuninni voru Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri Lífsbrúar – miðstöð sjálfsvígsforvarna, Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Neyðarvarnarfulltrúi Rauða Krossinum, Anna Guðný Hermannsdóttir verkefnastjóri Hjálp48 og Andrea Walraven-Thissen sérfræðingur í stuðningi í kjölfar sjálfsvígs. Hjálp48 teymið er skipað sex manns auk þriggja varamanna, sem öll hafa víðtæka reynslu, bakgrunn og þekkingu til þess að veita þjónustuna og styðja við syrgjendur.

Það var mikill fengur að fá Andreu Walraven-Thissen inn sem kennara. Hún hefur bakgrunn í geðhjúkrun og hefur starfað sem viðbragðsaðili í yfir 25 ár. Hún er sérfræðingur í stuðningi í kjölfar sjálfsvíga og í sálfélagslegu mati/forgangsröðun. Hún sérhæfir sig í gagnreyndum rannsóknum á fyrstu viðbrögðum og sálrænum áhrifum þeirra. Hún hefur víðtæka reynslu og þekkingu og leiðbeinir stjórnvöldum, alþjóðasamtökum og viðbragðsteymum um allan heim. Hún er höfundur bókarinnar Responding After Suicide: A Practical Guide to Immediate Postvention.

Veitir viðeigandi stuðning og eftirfylgni

Hjálp48 þjónusta Sorgarmiðstöðvar hefur það að markmiði að grípa aðstandendur eftir skyndilegan ástvinamissi utan sjúkrahússtofnana og veita þeim viðeigandi stuðning og eftirfylgni. Þjónustan verður til að byrja með fyrir þau sem missa í sjálfsvígi en mun svo færast yfir á annan skyndilegan og ótímabæran missi. Þjónustusvæði í fyrsta fasa er Akureyri og nágrenni og er þjónustan nú þegar í boði fyrir íbúa á þessu svæði.

„Verkefni hófst fyrir tæpum fimm árum og því hefur safnast upp umtalsverð þekking og búið er að nota tímann vel til að safna styrkjum og finna rétta fólkið sem er nauðsynlegt í slíku verkefni,“ segir Kristín Lilja Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvar. „Reynslan hefur sýnt að það er skynsamlegt í fyrsta áfanga slíks verkefnis að takmarka umfangið við Akureyri og nærliggjandi sveitarfélög. Margir hagsmunaaðilar koma að verkefninu og þjónustunni, og því mikilvægt að við metum og rýnum vandlega hvern þátt áður en við hefjum næsta áfanga.“

Kristín Lilja segir að Sorgarmiðstöð sinnir afar mikilvægu starfi, en samhliða þjónustu H48 veitir hún meðal annars stuðning, fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda. „Sorgarmiðstöð er einnig öflugur málsvari syrgjenda, vinnur markvisst að úrbótum í hagsmunamálum þeirra og stuðlar að bættu réttindaumhverfi þessa viðkvæma hóps í samfélaginu.“

Kristín Lilja Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvar

 Stuðningur við syrgjendur ætti að falla undir lýðheilsustarf

Sorgarmiðstöð varð til þegar fjögur grasrótarsamtök á sviði sorgarúrvinnslu undirrituðu viljayfirlýsingingu um stofnun hennar í byrjun nóvember árið 2018. Félögin voru Ný dögun, Birta, Ljónshjarta og Gleym mér ei. Rekja má upphafið til vinnufundar sem Ný dögun hélt snemma árs 207 með yfirskriftinni : „Hvað getum við gert betur í þjónustu við syrgjendur á Íslandi?“

Sá fundur skilaði þeirri niðurstöðu að bæta þyrfti þjónustu við syrgendur. Sú aðstoð sem bauðst var of dreifð, ómarkviss og af ýmsu tagi. Æskilegast væri að koma upp miðstöð þar sem syrgjendur og aðrir gætu gengið að upplýsingum og þjónustu á einum stað, með símtali, heimsókn eða á vefsíðu. Þá kom vel fram það sjónarmið að stuðningur við syrgjendur ætti að falla undir „lýðheilsustarf“ sem sjálfsagður liður í heilsueflingu samfélagsins. Sorgarúrvinnsla miðar að því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi.

Nýjast