Hér sleit ég barnsskónum og hér verður gott að slíta inniskónum

"Hér sleit ég barnsskónum og hér verður gott að slíta inniskónum," sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar, eftir að hann hafði tekið fyrstu skóflustunguna að nýju 45 hjúkrunarrýma hjúkrunarheimili við Vestursíðu nú fyrir stundu. Geir notaði öfluga vélskóflu við verkið og naut aðstoðar 8 ára sonar síns, Viktors Ernis.  

Þeir feðgar voru ekki í vandræum með að taka fyrstu skóflustunguna og koma framkvæmdum þar með formlega af stað. Geir sagði þetta ánægulegan áfanga og að framkvæmdin hefði jafnframt mikla þýðingu fyrir atvinnulífið. "Þetta verður algjör bylting fyrir þessa starfsemi og verður miklu frekar heimili þess fólks sem þarna mun búa í framtíðinni." Fram kom að hönnun Fanneyjar Hauksdóttur arkitekts á nýja hjúkrunarheimilinu hefði fengið mjög jákvæð viðbrögð víða. Það var verktakafyrirtækið G. Hjálmarsson sem ætti lægsta tilboð í jarðvegsskiptin en fyrirtækið bauð rúmar 38,8 milljónir króna í verkið, eða 79,7% af kostnaðaráætlun. Alls bárust fjögur tilboð í verkið og voru þrjú þeirra undir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á tæpar 48,8 milljónir króna. Hjúkrunarheimilið mun rísa á árunum 2011-2012. Heildarkostnaður er áætlaður um 1,25 milljarðar króna auk búnaðar. Stærð húss er brúttó áætlað um 3.375 m² og stærð lóðar er 16.340 m².

Nýjast