Franz Árnason forstjóri Norðurorku segir að ástæða þessa sé fyrirhuguð breyting varðandi endurgreiðslu virðisaukaskatts, samkvæmt frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. "Það kom ljós í frumvarpinu að ætlunin er að endurreikna endurgreiðslur á virðisaukaskatti, sem hefur verið hér upp á 4,3%. Virðisaukaskattur er 7% en íbúar á heitaveitusvæði Norðurorku hafa notið endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem nemur 4,3% og greitt 2,7% virðisaukaskatt. Nú liggur það fyrir í frumvarpi um ráðstafanir ríkisfjármála, að menn ætla að endurreikna þetta og þá fyrst og fremst vegna þess að verð á stærsta veitusvæðinu við Faxaflóa hefur hækkað verulega og er orðið mjög líkt því sem er hér hjá okkur. Þá fella menn endurgreiðsluna niður og við það hækkar virðisaukaskatturinn upp í 7%, sem þýðir beina hækkun um 4,3% á heitu vatni. Með tilliti til þessa kom stjórn Norðurorku saman í lok nóvember sl., þar sem ákveðið var að draga þessa 3,3% hækkun til baka, sem fremi að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi, sem allt bendir til."
Franz segir að það megi alveg færa fyrir rök að Norðurorka hefði þurft sína hækkun og að gert hafi verið ráð fyrir því, enda sé hér um að ræða 30 milljónir króna. "En það verður reynt að koma því þannig fyrir að áhrifanna gæti sem minnst, þótt af því verði ekki. Hagur fyrirtækisins er viðunandi og við gerum ráð fyrir því að geta staðið við allar okkar skuldbindingar á komandi árum. Ef allt gengur upp, ekki verða frekari kollsteypur, gera menn ráð fyrir því að hefja á ný lækkunarferli á heitu á vatni. Það var fyrst á árinu 2008 sem við hækkuðum verð á heitu vatni á ný en árin þar á undan höfðum við lækkað verðið. Þegar verðið var hæst, kostaði rúmmeter af heitu vatni rúmar 119 krónur án virðisaukaskatts, í ár kostar hann 95 krónur en lægst fór rúmmetrinn í 89 krónur."
Franz segir að Reykjaveita, hitaveitan í Fnjóskadal og Grýtubakkahreppi, lúti öðrum lögmálum auk þess sem ætlunin sé að taka þar upp gjaldskrá sem byggir á orkumælingu að hluta um næstkomandi áramót.
Samkvæmt fjárhagáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að tekjur Norðurorku verði um 1.835 milljónir króna og rekstrargjöld verði 1.161 milljónir króna. Áætlaður tekur þessa árs voru um 1.814 milljónir króna og áætluð rekstrargjöld um 1.128 milljónir króna. Hjá Norðurorku starfa rúmlega 50 manns í tæplega 50 stöðugildum. Franz segir að starfsmannafjöldinn hafi verið nokkuð svipaður undanfarin ár og ráðgert er að hann verði lítið breyttur áfram.