Heimsþekktir listamenn með tónleika á Akureyri

Það er ekki á hverjum degi sem heimsþekktir listamenn heimsækja Akureyri. Sönghópurinn Voces8 heldur tónleika ásamt finnska konsertorganistanum Pétri Sakari og Kammerkór Norðurlands í Akureyrarkirkju mánudagskvöldið 29. september kl. 20:00. 

Á þessum tónleikum munu VOCES8 flytja mörg af sínum uppáhalds kórverkum, ásamt vinsælustu lögunum frá tónlistarferli þeirra. Stjórnandi Kammerkórsins er Guðmundur Óli Gunnarsson. Voces8 heimsækir Ísland sem hluta af afmælistónleikaferðinni Twenty, sem haldin er í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun hópsins. Voces8 er breskur sönghópur skipaður átta söngvurum sem heillað hefur áheyrendur um allan heim með óviðjafnanlegri raddbeitingu, fjölbreyttri efnisskrá og lifandi sviðsframkomu. Þau hafa verið kölluð Rolls-Royce breskra sönghópa og hlotið margvíslegar viðurkenningar m.a. Grammy útnefningu.

Auk tónleikanna í Akureyrarkirkju heldur Voces8 söngsmiðju í Reykjavík fyrir fjóra kóra í samstarfi við Landssamband blandaðra kóra og Félag íslenskra kórstjóra. Meðal þessara fjögurra kóra er Kammerkór Norðurlands en það er mikill heiður að fá að taka þátt í svona metnaðarfullri smiðju. Afrakstur hennar verða tónleikar ásamt Voces8 í Hörpu 30. september kl. 20. Miðasala á tónleikana í Akureyrarkirkju og í Hörpu fer fram á Tix.is. Tryggið ykkur miða á einstaka tónlistarviðburði. Miðasala á tónleika á Akureyri er hér: https://tix.is/event/19690/voces-8-petur-sakari-with-kammerkor-nordurlands

Nýjast