Lokahóf Handknattleikssambands Íslands fór fram í Gullhömrum í gær þar sem nýliðinn vetur var gerður upp. Leikmenn Akureyrar voru fyrirferðamiklir þegar viðurkenningum var úthlutað í N1-deild karla og þá voru tveir leikmenn liðsins valdir í úrvalslið vetrarins.
Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar fékk Valdimarsbikarinn, en hann er veittur þeim leikmanni sem þykir mikilvægastur. Guðmundur Hólmar Helgason var valinn efnilegasti leikmaðurinn, Guðlaugur Arnarsson besti varnarmaðurinn og Sveinbjörn Pétursson besti markvörðurinn. Þá var Atli Hilmarsson valinn þjálfari ársins.
Ólafur Bjarki Ragnarsson frá HK var valinn besti leikmaðurinn en hann hlaut jafnframt háttvísisverðlaun Handknattleiksdómarasambandsins.
Þá voru þeir Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson valdir dómarar ársins.
Úrvalslið N1-deildar karla er þannig skipað:
Markvörður: Sveinbjörn Pétursson, Akureyri.
Línumaður: Atli Ævar Ingólfsson, HK.
Vinstra horn: Oddur Gretarsson, Akureyri.
Vinstri skytta: Ólafur Bjarki Ragnarsson, HK.
Miðjumaður: Ásbjörn Friðriksson, FH.
Hægri skytta: Ólafur Andrés Guðmundsson, FH.
Hægra horn: Einar Rafn Eiðsson, Fram.