Heimir: Áttum ekki mikið skilið úr þessum leik

Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar var ekki hressasti maðurinn á svæðinu í Höllinni á Akureyri í kvöld eftir eins marks tap norðanmanna gegn FH, 21:22, í fyrsta leik liðanna úrslitum N1-deildar karla í handbolta. FH er komið með 1:0 forystu og voru einfaldlega betri aðilinn í kvöld. „Við áttum bara ekki mikið skilið úr þessum leik. Þeir voru bara betri en við í kvöld, ég verð bara að viðurkenna það,” sagði Heimir í leikslok.

„Við fenguð tvö eða þrjú færi til þess að komast marki yfir og hefðum ekki þurft meira en það. Hefðum við náð að yfirvinna þann þröskuld að þá hefðum við örugglega náð að klára þetta. Við fengum dauðafæri á línu, horni og svo fékk ég dauðafæri líka. Hann var hrikalegur erfiður í markinu hjá FH í kvöld og varði þetta allt,” sagði Hemir en Daníel Freyr Andrésson átti stórleik í marki FH með 19 skot varin.

„Við vorum rosalega taktlausir í byrjun og alltof margir rólegir í sókninni. Við áttum bara ekki góðan dag,” sagði Heimir. Erfitt verkefni býður Akureyringa á föstudaginn kemur, er liðin mætast í Kaplakrika í öðrum leik liðanna. Það er ljóst að ýmislegt þarf að laga í leik Akureyrar ætli liðið sér eiga möguleika gegn FH á þeirra heimavelli en vinni FH þann leik eru þeir með pálmann í höndunum. Það er skarð fyrir skildi að Guðmundur Hólmar Helgason verður í leikbanni í næsta leik vegna rauða spjaldsins sem hann fékk á lokamínútunum í kvöld.

Aðspurður hvort ekki verði erfitt að rífa liðið upp fyrir næsta leik eftir svona tap á heimavelli segir Heimir: „Að sjálfsögðu verður það erfitt en ég ætla bara að vona að allir leikirnir verði svona jafnir og þetta detti okkar megin næst. Þetta er langt frá því að vera búið og við eigum alltaf eftir að koma aftur hingað. Það er engin spurning að við eigum eftir að bíta frá okkur og mætum klárir á föstudaginn,” sagði Heimir.

 

Baldvin: Reikna með að koma tvisvar aftur norður 

Baldvin Þorsteinsson, einn af Akureyringunum í liði FH, var að vonum sáttur í leikslok.

„Þetta var gríðarlega sætt. Þetta eru tvö mjög jöfn lið og þetta féll okkar megin í kvöld. Svona er þetta bara. Þetta er hins vegar bara rétt að byrja og ég reikna fastlega með að þurfa koma hingað tvisvar aftur. Þó við höfum alltaf verið skrefinu framar í kvöld að þá náðum við ekki að hrista þá af okkur og við bara rétt svo héngum á þessu. Ég hefði viljað sjá okkur gera út um leikinn fyrr en Akureyringarnir eru bara góðir, börðust eins og hundar og komu á óvart með Odd í skyttunni,” sagði Baldvin, en hornamaðurinn Oddur Gretarsson sýndi fína takta í skyttuhlutverkinu í kvöld og skoraði nokkur góð mörk.

 

„Þetta eru bara jöfn lið og ég er ekkert hissa á þetta hafi ráðist á lokasekúndunum. Við bíðum bara spenntir eftir föstudeginum og það verður gott að spila á heimavelli," sagði Baldvin.

Nýjast