Heildarafli skipa Brims svipaður milli ára en meira aflaverðmæti

Aflaverðmæti skipa Brims á árinu 2010 námu rúmum 8 milljörðum króna og var aukningin um 10% frá fyrra ári þó svo heildarafli skipanna hafi verið sá sami á milli ára, í tonnum talið. Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 var með mesta aflaverðmætið, samtals rúma 2,4 milljarða króna en aflinn var rúmlega 5.250 tonn. Frystitogarinn Kleifarberg ÓF 2 var með næst mesta aflaverðmætið, rúma 2 milljarða króna og aflinn rúm 7.000 tonn.  

Þriðji frystitogari félagsins, Brimnes RE 27 var með tæpa tvo milljarða króna í aflaverðmæti á síðasta ári en mestan afla, eða 8.725 tonn. Ísfisktogarinn Sólbakur EA 1 gerði það einnig gott á árinu 2010, aflinn var 4.757 tonn og aflaverðmætið tæplega 1,1 milljarður króna. Aflinn hjá Sólborg RE 270 var tæplega 1.200 tonn og aflaverðmætið um 352 milljónir króna. Loks var Mars RE 205 með 918 tonna afla og var aflaverðmætið rúmar 208 milljónir króna.

Þetta er eitt besta ár í sögu Brims og forsendan fyrir þessum góða afla eru öflug skip og góðar áhafnir og skilvirkt fiskveiðistjórnarkerfi, þó ekki sé það gallalaust, segir á vef félagsins. Mikil óvissa er framundan fyrir Brim sem og öll íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vegna óljósrar stefnu stjórnvalda um íslenskan sjávarútveg. Þrátt fyrir það stefnir Brim á að halda sjó á þessu ári og sækja nýjar tegundir eins og gulllax og makríl og vonast er til að nýju tegundirnar vegi upp á móti þeirri skerðingu aflaheimilda sem félagið hefur orðið fyrir á síðustu misserum.

Nýjast