Heiðra Hjalta og vekja athygli á úrræðaleysi fyrir ungt fólk með geðrænan vanda

Hjalti Snær Árnason hefði orðið 23 ára í dag. Hann hvarf í sjóinn við Laugarás í Reykjavík fyrir 7 v…
Hjalti Snær Árnason hefði orðið 23 ára í dag. Hann hvarf í sjóinn við Laugarás í Reykjavík fyrir 7 vikum og hefur ekki fundist. Foreldrar hans efna til viðburðar í Freyvangi í kvöld.

Viðburður til heiðurs Hjalta Snæ Árnasyni verður í Freyvangi í kvöld, föstudagskvöldið 9. maí og hefst hann kl. 20. Hjalti Snær hefði orðið 23 ára í dag. Hann fór í sína daglegu morgungöngu frá Laugarási í Reykjavík fyrir 7 vikum síðan, gekk þar í sjóinn og hefur enn ekki fundist.

Gerður Ósk Hjaltadóttir og Árni Jökull Gunnarson foreldrar Hjalta standa fyrir þessum viðburði og er ætlunin er að vekja athygli á úrræðum/úrræðaleysi sem blasir við ungu fólki sem glímir við geðrænan vanda.

Viðburðurinn er öðrum þræði afmælisveisla en í leiðinni einnig söfnun sem foreldrar Hjalta Snæs eru að hefja.

„Hann hefur aldrei viljað veislur en okkur hefur alltaf langað að fagna honum á einhvern hátt. Það verður opið svið þannig að ef einhver vill gera eitthvað þá er það velkomið. Allt samt í anda Hjalta Snæs. Fögnum honum eins og við þekktum hann áður en veikindin herjuðu á hann,“ segja foreldrar hans í kynningu á viðburðinum.

Nokkrir vina hjónanna verða með varning til sölu þar sem ágóðinn mun renna til sjóðs/verkefnis sem verður eyrna merktur úrræði sem er nauðsynlegt fyrir ungt fólk eins og Hjalta hér á Norðurlandi. „Nokkrar hugmyndir komnar en þetta mun skýrast með tímanum. Ef þið viljið aðstoða okkur með að gera þessa kvöld stund þá er hugmynd að vera með Pálínu boð. Munum enda kvöldið með því að sleppa fallegum kerta luktum upp í loftið.“

Frjálst að vera með atriði og sögur af Hjalta Snæ eru vel þegnar segir ennfremur.

Nýjast